Mörg og fjölbreytt verkefni á tjaldsvæðunum
Loksins stefnir í sæmilega suðræna viku hér norðan heiða með hitatölum vel norður af tíu gráðunum en að vísu með dassi af sunnanvindi á köflum. Það eru því væntanlega einhverjir farnir að plana ferðalög með hjólhýsi eða tjald og því ekki vitlaust að taka stöðuna á tjaldsvæðunum. Feykir hafði samband við Hildi Magnúsdóttur hjá Álfakletti en hún og eiginmaðurinn, Halldór Gunnlaugsson, sem búa á Ríp 3 í Hegranesi, hafa síðan árið 2011 rekið tjaldsvæðin í Varmahlíð, á Sauðárkróki, Hofsósi og á Hólum í Hjaltadal undir merkjum Tjöldum í Skagafirði.
Auk þess rekur Álfaklettur félagsheimilið í Hegranesi. Hjónin hafa því rekið þessi fjögur tjaldstæði sl. 13 ár. Þau segja að á þessum árum hafa orðið miklar breytingar á ferðaháttum og ferðatímabili fólks.
„Þegar við byrjuðum, þá reiknuðum við með því að hafa opið í þrjá mánuði á ári en með tilkomu litlu ferðabílanna (í stað tjalda) þá hefur ferðatímabilið lengst til muna og nær opnunartími nú frá 1. maí og eitthvað fram í október ár hvert eða í næstum hálft ár. Þessi ár hafa verið mjög misjöfn, en fjöldi ferðamanna jókst jafnt og þétt frá árinu 2011 og fram að covid en þá hrundi aðsóknin um tæp 40% milli ára,“ segir Hildur og bætir við að enn hafi ekki náðst að vinna upp í þann fjölda sem heimsótti tjaldsvæðin fyrir heimsfaraldurinn.
Það mátti sjá á síðu ykkar á Facebook að þið voruð að opna eldhúsaðstöðu á tjaldsvæðinu í Varmahlíð að nýja. Hvaða kom fyrir? „Í vetur þegar frost fór niður fyrir 20 gráðurnar þá sprakk hjá okkur heitavatnsrör í húsi sem við höfðum endurbyggt og breytt í eldhúsaðstöðu fyrir ferðamenn, aðeins tveimur árum áður. Það þurfti að rífa hverja einustu fjöl innan úr húsinu svo ekkert stóð eftir nema ytra byrðið. En nú á mánudaginn tókst okkur að opna að nýju eftir að hafa byggt húsið upp aftur og erum við mjög glöð með að geta haldið áfram að bjóða ferðamönnum upp á aðstöðu inni við til að elda, þvo þvott og slaka á. Við tókum vel eftir því að mikið af erlendum ferðamönnum sem komu við, keyrðu í burtu og ákváðu að fara annað, á meðan eldunaraðstöðunnar naut ekki við. Svo vonandi verður þetta til þess að þeir taki gleði sína að nýju og koma og stoppa hjá okkur.“
Hver eru helstu verkefnin og hvað er erfiðast við að reka tjaldsvæðin? „Verkefnin eru ansi mörg og fjölbreytt, allt frá daglegum þrifum og slætti upp í að skipuleggja og setja upp mótssvæði fyrir fótboltamótin á Sauðárkróki. Það er einnig mikið utanumhald og þessa sex mánuði á ári þá varla stoppar síminn hjá manni. Þetta geta verið ansi langir dagar og stundum jafnvel nætur.“
Hvernig hefur sumarið farið af stað og hvernig líst ykkur á framhaldið? „Sumarið í sumar hefur farið frekar hægt á stað enda veður fram eftir vori, eins og allir muna, ekki gott. Við vonum bara að haustið verði lengra og betra í staðinn. Aðal topparnir hjá okkur eru íþróttamót og helgarnar en Íslendingar ferðast mest í rúmar sex vikur á ári eða frá því í byrjun júlí og fram yfir verslunarmannahelgi en erlendu ferðamennirnir ferðast mun lengur,“ segir Hildur í lokin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.