Mættu ekki klárar til leiks á Heimavöll hamingjunnar
„Við mætum bara ekki klárar til leiks, ætli það hafi ekki gert okkur erfitt fyrir að koma til baka þegar við lendum undir 2-0 strax í byrjun leiks,“ sagði Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls í Bestu deild kvenna, þegar Feykir spurði hana út í leikinn gegn Víkingum í gærkvöldi. „Ég get ekki annað en verið hreinskilin og segja að varnarleikurinn var virkilega slæmur og það er eitthvað sem við veðrðum að laga.“
„Þær voru góðar í sínum aðgerðum og voru bara meira mættar til leiks en við. Einfaldlega ekki góður dagur hjá okkur og við erum betra lið en við sýndum í þessum leik svo ég veit að við komum sterkari til leiks í næsta leik!“ bætti Bryndís við.
Hvernig fannst þér leikurinn? „Mér fannst þær bara vera á undan okkur í flestum aðgerðum og við í raun lendum í smá eltingarleik við þær þar af leiðandi. Við hefðum þurft að vera aðeins skipulagðari með boltann en erum samt í raun óheppnar að ná ekki að skora fleiri mörk þar sem við fengum nokkur góð færi. Varnarleikurinn brást okkur í [gær] og því fór eins og það fór. Mín skoðun er sú að þegar Elísa er tekin niður í fyrri hálfleik í vítateig Víkings að þá hefðum við átt að fá víti, en dómarinn var ekki sammála því. Við reyndum að halda áfram að sækja á þær og ná inn mörkum en það gekk ekki upp í dag.“
Einn leikur eftir í deild, gegn Keflavík sem tapaði á ótrúlegan hátt í kvöld. Hvernig leggst leikurinn í þig og hvað á að bjóða stuðningsfólki upp á? „Eftir leik eins og í kvöld þá fer maður brjálaður inn í næsta leik til að gera betur, það er ekki spurning! Við munum leggja til með að mæta með læti á völlinn og berjast fyrir lífi okkar í deildinni með kjafti og klóm! Þannig ég get ekki annað en verið spennt fyrir þeim leik. Ég bara vona innilega að allt stuðningsfólk okkar mæti og styðji við okkur því að þegar oft er þörf, þá nú er nauðsyn!“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.