Lýtingurinn Gunnar Freyr glímir í Englandi
Á heimasíðu Glímusambands Íslands er sagt frá því að flottur hópur glímumanna sé nú á keppnisferðalagi um England þar sem tíu glímumenn- og konur taka þátt í ellefu mótum á tíu dögum. Einn af þeim sem stígur dansinn er skráður í UMSS en það er Gunnar Freyr Þórarinsson og lagði Feykir nokkrar spurningar fyrir hann í gær. Gunnar Freyr er sonur Sigrúnar Helgu Indriðadóttur og Þórarins Guðna Sverrissonar sem búa á Stórhóli í Lýtingsstaðahreppi. „Þar er ég alinn upp en hef í seinni tíð verið heimalningur í Skagafirðinum á sumrin en hef verið í skóla á Akureyri og í Reykjavík síðan haustið 2015,“ segir hann til að byrja með.
Hvar og hvenær byrjaðir þú að æfa glímu? „Góð spurning, þetta byrjaði nú bara með því að ég og félagi minn í íþróttafræði í HÍ rákum augun í auglýsingu um glímumót á Hvammstanga í nóvember á síðasta ári (2023). Við þurftum í raun voða lítið að segja við hvorn annan, litum á hvorn annan og kinkuðum kolli. Þar með var það ákveðið að við skyldum taka þátt, gerðum okkur ferðir í Reykjanesbæ til þess að sækja æfingar fyrir mótið sem var þremur vikum síðar. Síðan þá hefur þetta undið upp á sig hægt og bítandi. Við mættum á fleiri mót og fleiri æfingar, fengum boð um að fara með landsliðshópnum til Frakklands í mars á þessu ári og prófa að keppa í hryggspennu (backhold). Það gekk virkilega vel og var mjög gaman. Þar endaði ég í fjórða sæti í þungavigtarflokki, þar sem ég varð undir í undanúrslitum og glímunni upp á þriðja sætið en í síðustu glímu varð ég fyrir því óláni að rifbeinsbrotna í viðureign 2/4 og eftirleikurinn auðveldur fyrir andstæðinginn og fór sú glíma 3-1. Eftir Frakklandsferðina voru sex vikur í Íslandsglímuna á Laugarvatni og fór sá tími í að leyfa rifbeininu að gróa og því engin æfing fram að henni. Eins í sumar var engin æfing önnur en að moka malbiki svo við erum aðeins að kickstarta tímabilinu með þessari Englandsferð.“
Hvað ertu að gera annað en að glíma? „Það er í sjálfu sér ekkert gríðarlega mikið, er að byrja í Meistaranámi (M.Ed) í íþrótta- og heilsufræðum en ég útskrifaðist í vor með Bs. í því sama. Ég er einnig í sviðsráði menntavísindasviðs við Háskóla Íslands og varamaður í stúdentaráði fyrir menntavísindasvið. Þar að auki spila ég blak 1-2 í viku með þriðjudeildarliði Aftureldingar, mæti í bumbubolta helst einu sinni í viku, og þjálfa sund og frjálsar hjá Aftureldingu í Mosfellsbæ tvisvar í viku.“
Hvers vegna glíma, hvað er svona heillandi við hana? „Glíman er náttúrulega fyrst og fremst skemmtileg. Það er gríðarleg virðing borin fyrir keppinautum og öðrum keppendum í henni, það er mikill stíll og sjarmi yfir henni og yfirleitt mjög skemmtilegt að fylgjast með góðum glímumönnum beita fallegum brögðum til að leggja andstæðinga sína. Glíman er þjóðaríþrótt okkar Íslendinga og hefur verið stunduð í háa herrans tíð, fegurðin við hana er virðingin eins og áður hefur komið fram, þetta eru ekki slagsmál heldur spurning um fimi, sntyrk, snerpu, útsjónarsemi og margt fleira. Því miður eru ekki margir sem stunda hana á Íslandi í dag, sem er í raun synd og skömm. Hvort það er vegna þess að það er ekki í boði að æfa hana eða hvort fólk líti hana hornauga er ég ekki viss um. Ég að minnsta kosti vil nýta tækifærið og hvetja ungna sem aldna að prófa glímuna og önnur fangbrögð og einnig skora á kennara í grunn- og framhaldsskólum til þess að kynna sér hana og kynna fyrir ungmennum í sinni heimabyggð, það hafa allir gaman af smá hnoði.“
Hvað stendur til hjá glímumönnum? „Það er svo margt á döfinni, tímabilið er að hefjast og nokkur mót framundan á Íslandi. Tilgangurinn með ferðinni er að kynnast og ná betri tökum á hryggspennunni, kynnast keppendum frá öðrum löndum og læra að lesa í þá. Svo er rúsínan í pylsuendanum og megin tilgangurinn með ferðinni er í raun fyrsta keppnis- og æfingaferðin fyrir Evrópumeistaramótið í Backhold sem verður haldið í Frakklandi í apríl 2025 þar sem stefnt verður á að fara með íslenska keppendur í öllum þyngdarflokkum.“
Hvaða staði á að heimsækja? „Öööö, ég er ekkert sérlega kunnugur staðháttum hérna því miður en hátíðirnar sem glímt er á heita eftirfarandi: 22.ágúst- Grayrigg show 24. ágúst- Bute Highland Games (Skotlandi) 25.ágúst- Grasmere (stærsta keppnin) 26.ágúst- Keswick Show 28.ágúst- Ennerdale show 29.ágúst- Crosby Ravensworth show 30.ágúst- Rothbury Mart (eina innanhúss keppnin) 31.ágúst- Holm show og Bellingham show (tvær keppnir þennan daginn) 1.september- Loweswater show. Flestar hátíðirnar eru í um klukkustundarfjarlægð frá gististaðnum á bíl.“
11 mót á tíu dögum, er það eki galið? „Það hljómar mjög galið og verður eflaust mjög erfitt og mikilvægt að reyna að ná sem bestri endurheimt eftir hvert mót fyrir sig en við verðum líklega þónokkuð lemstruð á leiðinni heim og gefum okkur tíma til að ná góðri endurheimt þegar við komum heim. Margar af þessum keppnum eru samt þannig að það er beinn útsláttur en ekki riðlakeppni svo ef maður er óheppinn getur maður dottið út í fyrstu umferð og hver viðureign er upp í 2 eða 3 sigra, svo það er hægt að enda daginn á því að glíma bara tvisvar, en ef það gengur vel geta verið hátt í 20-30 glímur yfir daginn. Þannig að segja að það sé galið er kannski ekki orðið sem ég myndi nota, en vissulega verður mikið álag á hópnum og líklega ekki æskilegt að fara í margar svona ferðir á ári upp á líkamann að gera,“ segir Gunnar og hlær.
Ekki eru Englendingar að glíma að íslenskum sið, eru sömu reglur og samskonar búningar? „Heyrðu nei, Englendingarnir og Skotarnir glíma í hryggspennu (backhold). Það eru í raun engir eiginlegir búningar hér en yfirleitt bómullarbolur, svartar stuttbuxur og sokkar eða berfætt. Enginn búnaður, aðeins okkar eigin líkami og það sem við getum gert með honum.“
Næst að gera eitthvað annað í ferðinni? „Já við náum að skoða þónokkuð á mótunum þar sem oft eru bændamarkaðir og sýningar. Í bílnum á leiðinni á keppnisstaðina sjáum við eitt og annað, dýr úti á túni, hlaðnar girðingar, stórar búðir, tré, kindur með hala og margt fleira. Auk þess eru tveir dagar þar sem engin keppni verður og þá stefnum við að því að skoða einhver söfn og landið almennt á meðan við reynum að ná upp endurheimt,“ segir Gunnar Freyr að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.