Kosningar til Alþingis | Högni Elfar Gylfason skrifar
Undanfarið hefur mikill hamagangur verið í landsmálunum og pólitíkinni. Hin ólánlega ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sprakk með látum og boðað hefur verið til alþingiskosninga. Ekki er með góðu móti hægt að halda því fram að landsmenn hafi orðið hissa eftir óstjórn og síendurtekin átök innan stjórnarinnar.
Reyndar gerði nýr formaður Vinstri grænna, Svandís Svavarsdóttir, tilraun til að telja fólki trú um að hún hefði orðið hissa, en þær tilraunir hafa í besta falli vakið mönnum kátínu eftir þær yfirlýsingar og afarkosti sem hún og landsfundur VG settu samstarfsflokkum sínum fyrir skemmstu.
Kosningabarátta framundan
Nú hefur staðið yfir mikið spretthlaup meðal stjórnmálaflokka landsins þar sem unnið hefur verið að því að raða á lista fyrir komandi kosningar og safna meðmælendum til þess að fá heimild til að bjóða fram. Það var mjög gaman að taka þátt í söfnun undirskriftanna og þá ekki síst vegna þess hversu vel okkur var tekið. Framundan er stutt og snörp kosningabarátta þar sem kosið verður í lok þessa mánaðar. Búast má við að ekki verði allir málefnalegir í tali og skrifum, en slíkt lýsir þá aðeins málefnaþurrð viðkomandi og réttu viðbrögðin hljóta að vera að brosa út í annað.
Fjármálin
Stóru málin eða öllu heldur risa- málin sem ný ríkisstjórn þarf að tak-ast á við eru margvísleg. Eftir algjöra óstjórn og viðvarandi hallarekstur ríkissjóðs hjá stjórnarflokkum síðustu sjö ára eru ríkisfjármálin í molum. Efnahagur landsmanna er á brún hengiflugs eftir óðaverðbólgu og himinháa vexti sem henni hefur fylgt. Almenningur ásamt litlum og meðalstórum fyrirtækjum eru mörg hver við það að gefast upp og er eflaust nú þegar eitthvað um gjaldþrot fyrirtækja og íbúðamissi fjölskyldna. Ríkissjóð þarf að reka án halla svo verðbólga og vextir lækki hratt og örugglega. Það er þyngra en tárum taki að sagan virðist nú vera að endurtaka sig líkt og eftir efna-hagshrunið þar sem þúsundir Ís-lendinga misstu aleigu sína.
Orkumálin
Annað risamál sem þarfnast lag-færingar er það stjórnleysi sem hefur verið í orkumálum þjóðarinnar. Engin vatnsaflsvirkjun sem sett hefur verið í nýtingarflokk rammaáætlunar hefur verið reist svo árum skiptir. Á sama tíma hefur þriðji orkupakki Evrópusambandsins sem ríkisstjórnarflokkarnir sam-þykktu og sögðu að skipti engu máli mallað í róleg-heitum í átt að því að uppfylla allar þær viðvaran-ir sem þingmenn Mið-flokksins viðhöfðu í þinginu á sínum tíma. Fjöldi nýrra milliliða í smásölu raforku hafa bæst við og settir hafa verið á fót uppboðsmarkaðir fyrir heildsöluraforku sem þessir aðilar bítast um. Nýjustu fréttir eru þær að raforkuverð hafi um það bil tvöfaldast í slíku uppboði nýverið. Allir vita á hverjum sú hækkun lendir, að ekki sé talað um kostnaðinn við launagreiðslur til starfsmanna og arðgreiðslur til eigenda nýju raforku-sölufyrirtækjanna. Almenningur getur ekki tekið á sig endalausar og óþarfar hækkanir á verði nauðsyn-legrar grunnþjónustu í samfélaginu.
Galopnu landamærin
Ófremdarástand er í húsnæðismálum landsins, í menntamálum, heilbrigðis-málum og félagsmálum. Þar hefur algjört stjórnleysi og stefna ríkis-stjórnarflokkanna um galopin landa-mæri haft mikil áhrif. Tugþúsundum saman hefur fólk í leit að betra lífi komið til landsins í ljósi þess að gefin voru skýr merki frá stjórnvöldum um að hvergi væri meira gert fyrir hælisleitendur en hér. Gífurlegt álag hefur verið á flest eða öll grunnþjónustukerfin sem eru að hruni komin vegna þessa ofurálags. Einsýnt er að taka verður stjórn á landa-mærunum líkt og mörg ríkjanna á meginlandinu hafa gert. Þannig verður hægt að hefja endurreisn grunnkerfanna og þá kemur að góðum notum að fá til þess þá 26 milljarða sem hefur verið beinn árlegur kostnaður stjórnvalda við umsýslu hælisleitendakerfisins. Í kjölfarið getum við ákveðið sjálf hverjum við viljum bjóða til landsins og gert það vel ásamt því að aðstoða fólk á flótta nærri sínum heimaslóðum með miklu skilvirkari hætti en hægt er að gera hér heima.
Bóndi fer í framboð
Undirrituðum hefur hlotnast sá heið-ur að taka sæti á lista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Það hef ég þegið af auðmýkt og um leið einskærum áhuga á að gera gagn fyrir land og þjóð og þá ekki síst íbúa kjördæmisins. Í kosningabaráttunni og næstu fjögur árin mun ég beita mér sérstaklega fyrir hagsmunum íbúa kjördæmisins í bland við stóru landsmálin sem að hluta eru talin upp hér fyrir ofan og snerta alla landsmenn. Sem varaþingmaður kjördæmisins get ég haft áhrif til góðs með því að koma málum á framfæri. Þá er mögulegt að ég þurfi að leysa þingmenn af á Alþingi líkt og áður hefur gerst. Þar er enn frekar hægt að koma góðum málum í réttan farveg.
Norðvestur kjördæmið
Kjördæmið hefur á ýmsan máta orðið undir í baráttunni við báknið sunnan heiða ásamt því að hafa fengið afar takmarkaða athygli frá ráðherrum undanfarinna sjö ára. Ekki hjálpar að nú mun verða fækkað um einn þingmann í Norðvesturkjördæmi.
Staða vegakerfisins er sú að hvergi á landinu er meira af malarvegum og viðhald þeirra og eldri slitlagsvega hefur lítið sem ekkert verið. Nýlagnir slitlags á vegi í kjördæminu hafa svo ætíð þótt fréttnæmar sökum þess hve fátíðar þær eru. Jarðgangagerð hefur verið fryst niður í alkul af fráfarandi stjórnarflokkum þrátt fyrir mikla þörf, bæði á Vestfjörðum og í Fljótum. Einnig myndu göng undir Öxna-dalsheiði bæta öryggi í kjördæminu með tryggara aðgengi að Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þó sló öll met þegar stjórnin hætti við öll stærri útboð fyrr á árinu til að flytja milljarða í yfirkeyrslu verkefnis við Hornafjörð, en svo skringilega vill til að ráðherra samgöngumála til margra ára, núverandi fjármálaráðherra og for-maður Framsóknarflokksins býr ein-mitt í því kjördæmi.
Atvinnumálin þurfa athygli þingmanna kjördæmisins og ráðherra. Atvinnuuppbygging er forsenda styrkingar byggða og þau vel launuðu störf sem fylgja.
Í kjördæminu er stunduð mikil framleiðsla matvæla sem hlúa þarf að. Því miður hafa stjórnvöld undanfarinna ára þrengt svo um munar að íslenskum landbúnaði á ýmsan máta. Má þar nefna aukna skatta, auknar íþyngjandi reglur, eftirlit og skriffinnsku með hækkandi kostnaði ásamt stórauknum innflutningi tollfrjálsra landbúnaðarvara sem ekki þurfa að standast sömu reglur og hér er krafist. Þá má ekki gleyma því að sumir ráðherrar hafa talað niður íslenska framleiðslu matvæla í nafni einhverra furðulegra trúarbragða um að heim-urinn sé að farast af hennar völdum. Það er tímabært að í ráðuneyti land-búnaðar og matvælaframleiðslu setjist ráðherra sem hlúir að greininni og styrkir. Tími sýndarmennsku í þessum sem og öðrum málum er liðinn. Það þarf að auka matvælaframleiðslu en ekki minnka.
Hér er alls ekki allt upp talið sem vinna þarf framgang í kjördæminu, en þó læt ég staðar numið að sinni. Ég óska eftir þínum stuðningi til góðra verka. Atkvæði greidd Miðflokknum eru lykillinn að betri framtíð.
Áfram Ísland!
Högni Elfar Gylfsson
Höfundur er bóndi, vélstjóri, varaþingmaður og frambjóðandi Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.