Kaupfélagsmaður í 85 ár

Herdís Á Sæmundardóttir varaformaður stjórnar, Bjarni Maronsson stjórnarformaður KS með gjöfina góðu, Aðalsteinn J. Maríusson og Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri. Að neðan má sjá steininn fallega í bak og fyrir. MYNDIR: MARGRÉT GRÉTARS
Herdís Á Sæmundardóttir varaformaður stjórnar, Bjarni Maronsson stjórnarformaður KS með gjöfina góðu, Aðalsteinn J. Maríusson og Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri. Að neðan má sjá steininn fallega í bak og fyrir. MYNDIR: MARGRÉT GRÉTARS

Á dögunum kom Aðalsteinn J. Maríusson færandi hendi á skrifstofu Kaupfélags Skagfirðinga. Eins og þekkt er er Aðalsteinn mikill hagleiksmaður og er m.a. þekktur fyrir afar fallega steinsmíði. Með heimsókn þessari vildi hann einmitt færa kaupfélaginu fallega skorinn og áletraðan jaspis stein. Steinn þessi er upprunninn hér í Skagafirði, en eins og alkunna er þá gefa steinasafnarar ekki upp nákvæma staðsetningu á svona fundi.

Í skjali sem fylgdi þessari höfðinglegu gjöf segir:

,,Ég vil færa Kaupfélagi Skagfirðinga vinsemdarvott fyrir góð viðskipti á liðnum áratugum. Gerðist félagi í K.S. 1974.

Árið 1939 var ég, þá ársgamall, skráður í Kaupfélag Langnesinga, innlánsdeild; hef litið á mig sem samvinnumann síðan. Ég á ennþá bók nr 130 hjá K.L., innistæða kr. 20,-.

Þessi steinn – jaspis – er skagfirskur, unninn af mér.“

Eins og nærri má geta hafði Aðalsteinn frá mörgu skemmtilegu og fróðlegu að segja í þessari heimsókn ekki síst frá æskustöðvum hans í Þistilfirði. Bjarni Maronsson, formaður stjórnar, þakkaði Aðalsteini f.h. K.S þessa höfðinglegu gjöf.

/Fréttatilkynning

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir