Húsnæði Grunnskólans austan Vatna á Hofsósi tekið í gegn
Í fyrrasumar fóru af stað framkvæmdir við að klæða gamla hluta Grunnskólans austan Vatna á Hofsósi að norðan og austan en áður hafði verið skipt um þak. Að sögn Jóhanns Bjarnasonar, skólastjóra, var þeirri framkvæmd ekki lokið þegar skólastarf hófst síðasta haust.
„Þá voru líka komnar nánari út-færslur á byggingu lyftu sem var stað-sett norðan við húsið á þeim vegg sem verið var að klæða. Því var framkvæmdum frestað en fóru aftur af stað núna í vor áður en skóla var lokið,“ segir Jóhann. Þá var hafist handa við að taka grunn að lyftuhúsinu.
„Í viðbót við þá framkævmd verður aðalinngangi skólans breytt þannig að hann liggur nú saman frá norðurinngangi og suðurinngangi á mótum eldri og nýrri hluta skólans.“ Jóhann segir að allar þessar framkvæmdir, sem eru í gangi núna, miði að því að bæta aðgengi við skólann. Það verða settar nýjar rafstýrðar útihurðir og eins millihurðir frá andyri. Innihurðir verða breikkaðar þar sem þarf og útbúin verður bráðabirgða mataraðstaða fyrir yngstu nemendur í 1. og 2. bekk skólans. „Annars verður mötuneytið áfram enn um sinn í félagsheimilinu,“ segir Jóhann og er þá ekki enn allt upptalið.
Kennslu hætt á Hólum
Kennsla við Grunnskólann austan Vatna hefur síðstu árin farið fram bæði á Hofsósi og á Hólum en skólanum á Hólum hefur nú verið lokað og öll kennsla við skólann verður frá og með næsta skólaári á Hofsósi. „Það skýrir það líka að við þurfum aukastofu á skólastofuganginum og bókasafnið víkur fram á ganginn. Það er ljóst að töluverða útsjónarsemi þarf til að koma öllu skólahaldi fyrir svo vel sé,“ segir Jóhann og bætir við að áform séu um að halda áfram framkvæmdum og byggja íþróttasal við skólann og önnur rými sem sárlega vantar, svo sem mötuneyti, bókasafn og rými fyrir frístund svo eitthvað sé nefnt.
Auk skólabyggingarinnar fær skóla-lóðin einnig yfirhalningu en Jóhann segir að þar verði bætt við leiktækjum og aðstöðu fyrir yngstu nemendur næst skólanum, upphituðu svæði frá nemendainngangi út á skólalóð að þessu nýja leiksvæði og stíg áfram þvert gegnum skólalóðina fram hjá sparkvelli að Lindargötu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.