Hugmyndir um nýja leið til og frá Sauðárkróki
Feykir sendi Sigfúsi Inga Sigfússyni, sveitarstjóra Skagafjarðar, fyrirspurn varðandi mögulega nýja tengingu til Sauðárkróks um Þverárfjallsveg. Hann segir rétt að forsvarsmenn sveitarfélagsins telji að með vaxandi umsvifum fyrirtækja á Eyrarsvæðinu með tilheyrandi umferð vinnuvéla og stærri tækja sem þvera veginn oft á tíðum, sé heppilegt til framtíðar að almenn umferð einkabíla fara aðra leið til og frá Sauðárkróki.
Hann segir hugmyndir hafa komið upp um nýtt hringtorg sunnan Kjarnans og nýja vegtengingu þaðan til vesturs og yfir á Þverárfjallsveg. „Sú tenging gæti jafnframt þjónað íbúðabyggð á Nöfum í framtíðinni. Þessar hugmyndir eru á frumstigi,“ segir Sigfús Ingi.
Samkvæmt upplýsingum Feykis hefur hringtorg enn ekki verið hannað sérstaklega en sjá má frumdrög að hringtorgi sunnan Kjarnans og vestan smábátahafnarinnar á skipulagsuppdrætti hafnarsvæðisins á Sauðárkróki sem fylgir hér fréttinni. Þar má sjá skjáskot af hluta þess uppdráttar sem sýnir m.a. fimm arma hringtorg.
Sigfús Ingi segir að malarnámurnar í Gönguskörðum séu unnar í þessa átt og haft gæti opnast á komandi árum og vegurinn þá væntanlega legið um það og upp á Nafirnar.
Má þá reikna með að mörg ár séu þangað til þessar framkvæmdir hefjist? „Já, einhver tími að minnsta kosti. Vegagerðin fer með Þverárfjallsveginn/Strandveginn þannig að þessar hugmyndir þurfa að vera samþykktar þar og fjármagnaðar. Samgönguyfirvöld sjá hins vegar vandann sem orðinn er gagnvart umferðaröryggi við mjög vaxandi umsvif á hafnarsvæðinu og starfssvæði Steinullar, Vörumiðlunar, Steypustöðvar og Eyrarinnar,“ segir Sigfús Ingi að lokum
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.