Hugarfóstur Audda Blö tilnefnt til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna

Fyrir einhverjum árum kviknaði hugmynd í kolli Auðuns Blöndal sem á endanum varð að grín/hasarmyndinni Leynilöggu en myndin var frumsýnd í fyrra við góðar undirtektir íslenskra bíógesta. Það sem kannski kom á óvart var að myndin hitti í mark utan landsteinanna og í dag varð vegur Leynilöggu enn tilkomumeiri því kvikmyndin var tilnefnd til Evrósku kvikmyndaverðlaunanna í flokki gamanmynda.

Kvikmyndinni, sem kallast Cop Secret á erlensku, var leikstýrt af meistara Hannesi Þór Halldórssyni sem er þó sennilega enn þekktastur fyrir að verja víti frá Messi á HM í Rússlandi. Leynilögga skartar þremur Skagfirðingum í aðalhlutverkum; Audda Blö, Einari Dýllara Egilssyni og Vivian Ólafsdóttur. Auddi og Egill voru að auki í fimm manna hópi handritshöfunda myndarinnar

Aðeins þrjár myndir eru tilnefndar í flokki gamanmynda en hinar tvær eru spænska myndin El buen patrón (The Good Boss) og franska ræman La Fracture (The Divide). Í frétt á Vísi.is segir að þetta sé í 35. skipti sem Evrópsku kvikmyndaverðlaunin eru afhent en flokkurinn utan um gamanmyndir hefur verið við lýði í tíu ár. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk mynd er tilnefnd í þeim flokki en alls hafa íslenskar myndir og stuttmyndir hlotið átta tilnefningar í gegnum tíðina.

Að þessu sinni verða Evrópsku kvikmyndaverðlaunin haldin á Íslandi, nánar tiltekið þann 10. desember í Hörpu. Húllumhæinu verður að sjálfsögðu sjónvarpað til fjölmargra Evrópulanda.

Feykir óskar Audda og félögum til hamingju með tilnefninguna. Hér er hlekkur á viðtal Feykis við kappann frá því fyrir ári og fimm dögum >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir