HSN á Sauðárkróki fékk rausnarlega gjöf frá KS
Bjarni Maronsson stjórnarformaður KS afhenti nú síðastliðinn mánudag formlega, fyrir hönd Kaupfélags Skagfirðinga, Heilbrigðisstofnun Norðulands á Sauðárkróki rausnarlega gjöf. Um var að ræða nýtt og mjög fullkomið ómtæki sem kostar u.þ.b. 10 milljónir króna. Gjöfin var vel rúmlega fyrir því og hægt að bæta við tíu nýjum sjúkrarúmum á stofnunina sem kemur sér sérstaklega vel.
„Nýja ómtækið er komið og er mjög fullkomið,“ sagði Þorsteinn M. Þorsteinsson læknir þegar Feykir spurðist fyrir um gjöfina en Þorsteinn sinnti lengi skimunarómunum við tuttugustu viku á meðgöngu.
„Ómtækið getur hjálpað okkur í daglegu starfi við sjúkdómsgreiningar og við stefnum á að fleiri læknar fái frekari þjálfun í ómun, ekki síst vegna kynslóðaskipta hjá læknum. Nýir og betri læknar komnir og vonandi fleiri á leiðinni,“ segir hann.
Hann bætir við að ómanir séu líka að fá meiri sess við sjúkdómsgreiningar, m.a. í bráðalækningum og á fleiri sviðum. Þær eru mikið notaðar í kvensjúkdómalækningum og hjartalækningum og reyndar þvagfæralækningum einnig.
„Við fáum til okkar hjartalækni og kvensjúkdómalækni reglulega og forsenda fyrir því er m.a. að hafa gott ómtæki,“ segir Þorsteinn. Hann vill að lokum koma til skila mjög miklu þakklæti til Kaupfélags Skagfirðinga fyrir þessa rausnarlegu gjöf og í raun Skagfirðingum almennt fyrir mikla og ómentanlega velvild í garð HSN á Sauðárkróki.
Fram kom í máli Bjarna Maronssonar við afhendinguna að gjöfin væri gefin í tilefni af 135 afmæli Kaupfélags Skagfirðinga sem var stofnað árið 1889. /gg
- - - - - -
Á myndinni hér að neðan sjást læknarnir Sigurbjörg, Þorsteinn og Örn taka nýja tækið til kostanna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.