Horfir til betri vegar í rafhleðslumálum í Skagafirði
„Sveitarfélagið Skagafjörður hefur verið í samskiptum við nokkra aðila sem hafa sýnt því áhuga að byggja upp öflugri innviði í formi rafhleðslustöðva í Skagafirði. Má þar nefna Orku náttúrunnar sem hefur hug á að koma upp nýjum hleðslustöðvum á Sauðárkróki, í Varmahlíð og á Hofsósi,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, þegar Feykir spurði hann hvort sveitarfélagið væri að vinna að því að fjölga rafhleðslustöðvum í Skagafirði.
Sigfús Ingi segir að Ísorka hafi einnig áform um að setja upp hleðslustöðvar í Varmahlíð. „Þá hafa aðrir aðilar verið í beinum samskiptum við fyrirtæki á svæðinu um uppbyggingu hleðslustöðva í samvinnu við þau. Einstök fyrirtæki og stofnanir hafa einnig komið upp hleðslustöðvum innan sinna lóða og má þar nefna Skagfirðingabúð, Kjarnann o.fl.“ segir sveitarstjórinn.
Mikil áhersla er lögð á að rafvæða bílaflota landsmanna en áherslan á aðgengi að hleðslu virðist hingað til hafa verið talsvert minni. Gera má því skóna að einn af mikilvægustu þáttunum varðandi það að taka á móti ferðamönnum sé að þeir fjölmörgu sem nú ferðast um landið á rafmagnsbílum geti stólað á aðgengi að hraðhleðslustöðvum. Staðan í Skagafirði getur sennilega vart talist viðunandi og þá ekki síst á Sauðárkróki þar sem lítil hraðhleðslustöð á N1 Ábæ hefur verið eini staðurinn þar sem hægt hefur verið að hlaða bílana. Reyndar var á dögunum tekin í notkun ný stöð þar en dælurnar eru nú tvær, voru áður þrjár en aðeins tvær nothæfar samtímis, en viðmótið þægilegra. Tvær hæghleðslustöðvar eru við Skagfirðingabúð og Kjarnann sem eru opnar almenningi en þar tekur marga klukkutíma að hlaða bílinn sem er að sjálfsögðu ekki það sem ferðamaðurinn er að leitast eftir. Feykir hefur heyrt af fólki sem hefur lent í veseni með að hlaða bílana sína á Króknum og bregst þannig við að það segist ekki koma aftur hingað á rafmagnsbíl.
En nú virðist semsagt horfa til betri vegar en uppsetning á rafhleðslustöðvum er kannski ekki alltaf einfalt mál. „Það fer eftir aðstæðum hverju sinni hvort innviðir til uppbygginga rafhleðslustöðva séu fullnægjandi eða hvort það þurfi að koma fyrir nýjum tengingum, nýjum spennistöðvum, breyta skipulagi o.s.frv.“ segir Sigfús Ingi og bætir við: „Það er hins vegar óhætt að segja að áhugi fyrirtækja á að koma fyrir hleðslustöðvum í Skagafirði fer mjög vaxandi – sem er vel.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.