Gul veðurviðvörun og sumarhiti
Það er gul veðurviðvörun í gangi á Norðurlandi vestra sem stendur og fellur ekki úr gildi fyrr en undir hádegi á morgun, þriðjudag. Veðurstofan gerir ráð fyrir sunnan 15-23 m/s og vindhviður staðbundið yfir 30 m/s við fjöll. Varasamt fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi.
Hitinn verður fyrst um sinn yfir tíu gráðum en kólnar aðeins þegar líður á morgundaginn. Skaplegt veður verður á miðvikudag en á fimmtudag er reiknað með stífri suðvestan átt á svæðinu og hita á bilinu 10-13 gráður framan af en þegar svo líður á föstudag fer hiti niður fyrir frostmark og úrkoman verður að snjókomu í bálhvössum norðvestan vindi. Á laugardag verður sama hvassviðrið en að líkindum hækkar hitinn og hellirignir.
Það kæmi því ekki á óvart ef Veðurstofan sýni okkur á Norðurlandi vestra appelsínugula spjaldið þegar færist nær helginni.
Ef aðeins þessir sem stjórna veðrinu gætu ákveðið sig...
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.