Guðni Þór ráðinn til starfa hjá KSÍ
Knattspyrnusamband Íslands hefur ráðið Króksarann Guðna Þór Einarsson í starf á innanlandssviði skrifstofu KSÍ og mun hann hefja störf 1. október næstkomandi. Fram kemur í frétt á vef KSÍ að meginverkefni séu umsjón með félagaskiptum leikmanna, skráning samninga leikmanna og utanumhald með leikmannalistum. Guðni mun einnig sinna ýmsum málum í tengslum við umsýslu móta, auk annarra tilfallandi verkefna.
„Guðni Þór hefur áralanga reynslu af því að starfa í knattspyrnuhreyfingunni, m.a. sem þjálfari í meistaraflokki og yngri flokkum, og sem verkefnastjóri knattspyrnudeildar HK, og mun sú reynsla nýtast honum og KSÍ vel. KSÍ býður Guðna velkominn til starfa.“
Guðni spilaði 145 leiki á sínum fótboltaferli; ýmist með liðum Tindastóls, Drangeyjar eða Augnabliks og svo lét hann duga að spila einn leik fyrir Kormák/Hvöt. Í þessum 145 leikjum gerði hann 30 mörk. Guðni hefur komið að þjálfun meistaraflokka síðan 2018 og er með 57% vinningshlutfall með liðum Tindastóls og HK. Hann þjálfaði kvennalið Tindastóls ásamt fyrst Jóni Stefáni Jónssyni og síðar Óskari Smára Haraldssyni þegar liðið lék í Pepsi Max deildinni. Hann færði sig síðan suður yfir heiðar og hefur þjálfað kvennalið HK síðustu þrjú sumur.
Það er því ekki laust við að það sé norðlensk sveifla á KSÍ þessa dagana því auk Guðna var Eysteinn Pétur Lárusson frá Blönduósi ráðinn framkvæmdastjóri KSÍ og hóf störf í byrjun mánaðar og síðan er Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, frá Akureyri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.