Félagafrelsi á vinnumarkaði
Ellefu þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp til laga um félagafrelsi á vinnumarkaði. Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi í gær. Meginmarkmið frumvarpsins eru að tryggja rétt launamanna til að velja sér stéttarfélag, leggja bann við forgagnsréttarákvæðum í kjarasamningum, vernda rétt launamanna til að standa utan verkfalla stéttarfélaga sem þeir tilheyra ekki og afnema greiðsluskyldu ófélagsbundinna launamanna þar sem þess er krafist í lögum eða kjarasamningum.
Í greinargerð frumvarpsins er bent á að þrátt fyrir að félagafrelsi njóti ríkari verndar skv. stjórnarskrá hér á landi en í nágrannalöndum hefur almenn löggjöf gert það að verkum að réttur manna til að velja sér félag eða standa utan félags er mun takmarkaðri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Samkvæmt tölum OECD er stéttarfélagaaðild á Íslandi mun hærri en í öðrum löndum.
Verði frumvarpið að lögum verður lagt bann við forgangsréttarákvæði líkt og segir að ofan, en þar er átt við ákvæði kjarasamnings sem veita félagsmönnum tiltekins stéttarfélags forgang að ákveðnum störfum. Slík ákvæði hafa í för með sér að einstök stéttarfélög geta í raun komið í veg fyrir að stofnuð verði ný stéttarfélög í sömu starfsgrein á sama félagssvæði, enda bresta allar forsendur fyrir stofnun nýs stéttarfélags ef annað félag hefur forgang að öllum störfum á svæðinu. Í framkvæmd er enginn munur á forgangsréttarákvæðum og hreinum skylduaðildarákvæðum þar sem niðurstaðan verður alltaf sú sama.
Frumvarpið í heild má lesa HÉR
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.