Dúddarnir trúlega tromp kvöldsins

Þeir félagar, Guðbrandur Ægir og Maggi Helga, í essinu sínu á VSOT-tónleikum í Bifröst árið 2015. Tónleikarnir eru að þessu sinni tileinkaðir minningu Magga. MYND: ÓAB
Þeir félagar, Guðbrandur Ægir og Maggi Helga, í essinu sínu á VSOT-tónleikum í Bifröst árið 2015. Tónleikarnir eru að þessu sinni tileinkaðir minningu Magga. MYND: ÓAB

Einn af fylgifiskum sumarsins á Sauðárkróki eru tónleikarnir Græni Salurinn sem venju samkvæmt fara fram í gömlu góðu Bifröst – þó ekki í Græna salnum. Feykir spurði Ægi Ásbjörnsson, megin drifkraft tónleikanna, örlítið út í viðburðinn sem hefjast kl. 20:30 föstudagskvöldið 21. júní.

Hverju mega þeir sem mæta á Græna Salinn búast við annað kvöld? „Að vanda má búast við ljómandi tónlist úr öllum áttum, kátu fólki og rífandi stemningu. Einnig má búast við slagsmálum um sæti en það er önnur saga.“

Hvaða tónlistarfólk hefur boðað komu sína? „Ansi margir sem áður hafa gefið fólki ánægjulegar tónlistarstundir í Græna Salnum og áður VSOT. Sumar sveitir nánast óbreyttar einsog Skólahljómsveitin og Hljómsveit Baldvins I. Símonar og aðrar sem hrist hefur verið upp í eins og Tríó Pilla Prakkó. Hljómsveitin Týrol hefur boðað komu sína og vill fá opna æfingu á völdum lögum sem síðar verða flutt á Menningarnótt í höfuðborginni. Einnig fáum við góða vini að sunnan en Dúddarnir með Lárus Gríms í fararbroddi taka okkur í Jazz/fönk ferðalag auk þess að spila undir hjá nokkrum Skagfirskum söngvurum en það má segja að þessi hljómsveit sé tromp kvöldsins

Næst spyr Feykir hvort einhver óvæntur gestur muni dúkka upp en áttar sig svo á að sennilega væri gesturinn ekki óvæntur ef sagt væri frá hver hann væri. Ægir svarar þó að óvæntir gestir komi oft tónleikahöldurum á óvart og möguleikinn því til staðar

Hvers vegna á fólk að smella sér á Græna Salinn og hver er galdurinn við þessa tónleika? Fólk á fyrst og fremst að mæta til að skemmta sér, brosa framan í annað fólk og njóta. Þetta er tilvalin kvöldstund til að hefta tóneyrun við hlustirnar og gleyma öllu öðru. Einnig er vert að hafa í huga að menningin verður aldrei meiri en fólkið vill. Galdurinn er og verður neistinn sem myndast á milli flytjenda og njótenda,“ segir Guðbrandur Ægir að endingu.

Tónleikarnir eru tileinkaðir minningu Magnúsar Helgasonar en hann var fastagestur á sviði Bifrastar á Græna Salnum og VSOT. Maggi kvaddi nú snemma árs.

Húsið verður opnað kl. 20:00 en tónleikarnir byrja kl. 20:30. Aðgangseyrir er 1.500 krónur en ekki er posi á staðnum en hraðbanki í næsta húsi. Gáfulegt getur talist að mæta snemma til að fá sæti í sal.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir