Dómi varðandi launagreiðslur til tónlistarkennara í Skagafirði áfrýjað til Landsréttar

Frá Sauðárkróki síðsumars 2024. MYND: ÓAB
Frá Sauðárkróki síðsumars 2024. MYND: ÓAB

Feykir greindi á dögunum frá því að sveitarfélagið Skagafjörður hafi í Héraðsdómi Norðurlands vestra verið dæmt fyrir að brjóta á tónlistarkennurum. Málið snérist um það hvort þrír tónlistarkennarar við Tónlistarskóla Skagafjarðar ættu kröfu á sveitarfélagið vegna vangoldinna launa vegna aksturs á milli starfsstöðva skólans. Á fundi byggðarráðs í síðustu viku var það ákvörðun meirihlutans að um fordæmisgefandi mál væri að ræða og var því ákveðið að áfrýja málinu til Landsréttar.

Í fundargerð byggðarráðs segir m.a.: „Að mati meirihluta byggðaráðs er mikilvægt að fá umfjöllun á æðra dómsstigi um nokkur veigamikil atriði er varðar ágreining málsaðila, þ.á.m. túlkun á tilgreindum ákvæðum kjarasamnings Sambands ísl. sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags tónlistarskólakennara um akstur á milli starfsstöðva tónlistarskóla innan sama sveitarfélags.“

Bæði Jóhanna Ey Harðardóttir fulltrúi Byggðalista og Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi VG og óháðra voru ósáttar við ákvörðun meirihlutans og kemur það fram í bókunum þeirra á fundinum. „Mér þykir miður að svo sé komið að kennarar tónlistarskólans þurfi að sækja rétt sinn fyrir héraðsdómi og að ekki hafi verið nýtt heimild kjarasamnings um að semja sérstaklega um hvernig greitt sé fyrir akstur milli starfstöðva," sagði m.a. í bókun Jóhönnu.

Í niðurlagi bókunar Álfhildar segir: „Samkvæmt þeim dómi sem féll á hendur sveitarfélagsins í Héraðsdómi Norðurlands vestra er ljóst að Skagafjörður braut á kjarasamningi tónlistarkennara og er skylt að greiða bætur vegna þess. Að áfrýja þeim dómi til Landsréttar er bæði kostnaðarsamt fyrir sveitarfélagið en líka afskaplega sorgleg mannauðsstefna. Ætti sveitarfélagið að sjá sóma sinn í því að gera upp vangreidd gjöld við þau sem um ræðir og biðja þau afsökunar á broti á kjarasamningum."

Einar vonast til að það fáist skýr niðurstaða

Feykir spurði Einar E. Einarsson, forseta sveitarstjórnar Skagafjarðar, hvers vegna ákveðið hafi verið að áfrýja til Landsréttar. „Þetta mál á sér nokkuð langan aðdraganda en það hefur verið ágreiningur um túlkun á ákveðnum ákvæðum kjarasamnings Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags tónlistarskólakennara um akstur á milli starfsstöðva tónlistarskóla innan sama sveitarfélags, m.a. um hvort akstur á milli starfsstöðva teljist ávallt til yfirvinnu eða hvort hann rúmist innan árlegrar vinnuskyldu.“

„Sá dómur sem kveðinn var upp í héraðsdómi í vor tók í raun ekki á því ágreiningsefni. Með hliðsjón af gögnum málsins var það því mat okkar og lögfræðings sveitarfélagsins, að það væri best fyrir málsaðila að fá umfjöllun á æðra dómsstigi um nokkur atriði sem varða túlkun á fyrrgreindum kjarasamningi. Ég vona því að það fáist skýr niðurstaða í þessum túlkunaratriðum og eftir þeirri niðurstöðu verður svo að vinna áfram, hver sem hún verður,“ sagði Einar.

Sjá fundargerð byggðarráðs >

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir