Biðja fyrir snjóléttum vetri
„Helsta vandamálið við þetta verk er að við erum að leggja lögnina hálfum metra undir sjávarmáli í byrjun og gætir því flóðs og fjöru í lagnaskurðum. Við þurfum að láta dælu ganga allan sólarhringinn til að halda skurðum á þurru,“ segir Rúnar S. Símonarson hjá Vinnuvélum Símonar Skarphéðinssonar sem eru nú að vinna á Skagaströnd við fyrsta áfanga að fráveitu sem kallast Hólanes-Einbúastígur.
Rúnar segir að verið sé að grafa í gegnum fyllingu sem er bara sandur og verða skurðirnir því frekar stórir. „Veðrið skiptir líka máli og erum við búnir að leggjast á bæn um snjólettan vetur. Ef veður leyfir ætlum við að vinna í vetur við þetta verk,“ segir hann en verklok eru áætluð 1. júní 2023. Framkvæmdir á Skagaströnd hófust í lok september.
Hver hafa verið helstu verkefnin hjá ykkur í sumar og haust? „Við vorum með jarðvinnu fyrir viðbyggingu og lóð við Árkíl á Sauðárkróki og sáum um jarðvinnu fyrir Etanólverksmiðjuna við Mjólkursamlagið. Þá vorum við með alla jarðvinnu fyrir 2000 fermetra reiðhöll við Neðra-Ás í Hjaltadal, erum í gatnagerð fyrir sveitarfélagið í Nestúninu [á Sauðárkróki] sem er að klárast og einnig höfum við verið að taka húsgrunna og ýmis smærri verk fyrir sveitarfélagiðSkagafjörð.
Rúnar bætir við að þeir hafi einnig unnið plægingarverkefni fyrir Orkufjarskipti á þríburaröri frá Lónsá á Akureyri og að sýslumörkum Skagafjarðar og því sé nú lokið. „Við erum líka með plægjingarverkefni fyrir Rarik uppi í Hjaltadal sem klárast í næstu viku,“ segir hann.
Meðal þeirra verkefna sem eru framundan nefnir Rúnar gatnagerð við Norðurbrún í Varmahlíð fyrir sveitarfélagið, áframhaldandi vinnu við fráveitu á Skagaströnd, taka þarf þrjá húsgrunna og síðan annast Vinnuvélar Símonar snjómokstur fyrir sveitarfélagið í vetur. „Einnig sjáum við um vetrarþjónustu á flugvellinum og ansi mörg fyrirtæki í bænum.“
Er alltaf nóg að gera hjá verktökum þessi misserin? „Verkefnastaðan er mjög góð en við erum að glíma við vöntun á starfsfólki eins og ansi margir í dag,“ segir Rúnar að lokum.
- - - - - -
Feykir fékk lánaðar nokkrar myndir hjá Árna Geir á Skagaströnd sem sýna framkvæmdir við fráveituna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.