Ásgeir Bragi fær verðlaun sem efnilegur höfundur

Ásgeir Bragi með verðlaunin. Langi Seli og Jón Skuggi í bakgrunni. MYND: GUÐBRANDUR ÆGIR
Ásgeir Bragi með verðlaunin. Langi Seli og Jón Skuggi í bakgrunni. MYND: GUÐBRANDUR ÆGIR

Á dögunum ákvað stjórn STEFs, Félags tón- og textahöfunda á Íslandi, að brydda upp á þeirri nýjung að verðlauna efnilega höfunda samhliða hinum árlegu Menningarnæturtónleikum í bakgarðinum við Laufásveg 40 í Reykjavík. Voru verðlaunin veitt í fyrsta skipti í ár og hlutu þau Anna Gréta Sigurðardóttir, Ásgeir Bragi Ægisson og Katrín Helga Ólafsdóttir viðurkenningar en Ásgeir Bragi, sem kallar sig Ouse, er frá Sauðárkróki.

Í tilkynningu á vef STEFs segir að verðlaunahafar eigi það sameiginlegt að hafa upp á síðkastið sýnt „ört vaxandi árangur sem tónhöfundar“, eins og segir á tilheyrandi verðlaunaskjölum. „Mælistikan á það er öðru fremur eftirtektarverð aukning í úthlutun undanfarin misseri vegna opinbers flutnings á verkum þeirra. Með viðurkenningnum vill stjórnin hvetja þessa höfunda til frekari dáða.“

Í umsögn um Ásgeir Braga segir að hann sé fæddur og uppalinn á Sauðárkróki. „17 ára gamall tók hann að semja og senda frá sér tónlist undir listamannsnafninu „Ouse“. Í kjölfarið fluttist hann til Akureyrar og síðar Reykjavíkur til að geta sinnt ferlinum betur. Á síðastliðnum árum hefur hann starfað með ýmsum erlendum flytjendum, aðallega Bandarískum, en um skeið bjó hann í Los Angeles. Tónlist hans mætti helst skilgreina sem n.k. „hip-hop“, en lögum eftir hann hefur verið streymt í milljónavís, þar af er eitt þeirra, „Dead Eyes“, með yfir 100 milljón spilanir á Spotify.“

Á bakgarðstónleikunum, þar sem verðlaunin voru veitt, spiluðu Króksararnir Arnar Freyr og Helgi Sæmundur í Úlfur Úlfur í félagi við skagfirska gítarséníið Reyni Snæ.

Feykir óskar Ásgeiri Braga til hamingju með heiðurinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir