Andri Már stígur á stokk í Mexíkó

Andri Már leikur af fingrum fram. SKJÁSKOT
Andri Már leikur af fingrum fram. SKJÁSKOT

Feykir hefur aðeins fylgst með ævintýrum Andra Más Sigurðssonar / Joe Dubious á mexíkanskri grundu. Andra kannast margir við sem tónlistarmann og hann var eftirminnilega í framlínu hljómsveitarinnar dáðu, Contalgen Funeral, sem margir sakna. Andri flutti til Mexíkó árið 2019 og bjó í þorpinu La Erre í Guajajuato-fylki síðast þegar Feykir tók á honum púlsinn. Í fyrra sögðum við frá því að Andri væri farinn að láta á sér kræla í tónlistinni í Mexíkó og nú spilaði hann á virtri menningarstofnun, El Museo de la Independencia en Dolores Hidalgo – hvorki meira né minna!

Í færslu á Facebook segir hann að það hafi verið la Academia de Música Casa Ferrusco sem bauð honum að loka tónleikum hjá þeim og auðvitað þáði hann boðið. „Maður verður að vera fínt klædur þegar maður er að spila á stöðum sem ég flokka sem virtar menningarstofnanir – ég ætti nú að vita það, hafandi verið næturvörður á Þjóðminnjasafni íslands,“ segir Króksarinn. En gefum Andra Má séns á að gera stutta sögu langa (eins og hann segir sjálfur):

„Ég byrjaði daginn á að taka æfingagigg fyrir konuna og strákana, nema þar á prógramminu var líka Gulur rauður grænn og blár sem er vinsælt þessa dagana,“ skrifar Andri og bætir við að fyrsta atriðið á tónleikunum hafi fyrir einhverja tilviljunn verið lítil stelpa að spila Gulur, rauður, grænn og blár á píanó. Hann segir að þetta hafi komið sér skemmtilega á óvart þó ekkert væri sungið með píanóinu.

„Eftir tíðindalausan dag dressaði ég mig upp og pakkaði gítar og microfón út í bíl. Ég keyrði frá litla þorpinu mínu til Dolores Hidalgo sem tekur um 10 mínútur. Umferðin dólaði sér hægt en kurteislega í átt að miðbænum og eftir að hafa keyrt nokkra hringi fann ég loksins bílastæði í fimm mínútna göngufjarlægð frá safninu. Eftir að hafa tekið mynd af bílnum og lagt á minnið hvar ég lagði honum hélt ég af stað, ofur fínt dressaður í kúrekastígvélum, með hatt, í vesti sem ég gifti mig í og auðvitað með gítartöskuna í hendinni.

Ég gekk í fimm mínútur og þessi fínt dressaði útlendingur fékk margar augngotur og mörg bros á leiðinni – enda eru Skagfirðingar myndarlegir og allstaðar tekið eftir þeim, hvar sem þeir eru í heiminum. Ég fann safnið fljótt enda búinn að fara þangað áður, svo ég mundi örugglega ekki villast, og skoða aðstæður. Ég auðvitað gekk inn eins og ég væri alþjóðleg stórstjarna og kynnti mig fyrir hinum tónlistarmönnunum sem voru á öllum aldri og komst svo að því að allir tónlistarkennararnir voru búnir að vera horfa á myndbönd á YouTube og könnuðust við mig – það gladdi mig mikið.

Tónleikarnir voru frábærir og liðu hratt fyrir sig, svo hratt að ég eiginlega gleymdi mér þar til nokkrum mínutum áður en ég átti að spila. Ég var kynntur til leiks og svo kynnti ég mig aftur til leiks sjálfur á minni innflytjenda spænsku.

Ég tilkynnti fólkinu að ég mundi taka þrjú lög eftir sjálfan mig á þremur mismunandi tungumálum og byrjaði þetta á AniXmanic, svo flutti ég lag á íslensku og svo lag á spænsku sem ég ætla ekki að tala um, heldur leyfa ykkur að dæma sjálf.

Það byrjaði að hellirigna rétt eftir að ég byrjaði að spila og það hljómaði mjög rómantískt og mér fannst ég voða töff. Verst var að labba aftur í bílinn í rigningunni en ég er varla verri þó ég vökni.“

Andri ætlar að hendi hinum tveimur lögunum sem hann flutti á tónleikunum á netið á næstu dögum. Hann mun svo spila á öðrum stað í annarri borg á laugardagskvöldið. „Ég kannski leyfi ykkur að heyra og sjá af því líka. Kanski tek ykkur með út á veginn hérna í Mexíkó þar sem kaktústar og mezquite tré lita stórbrotið landslagið,“ segir hann að lokum.

Hlekkur á myndband frá tónleikunum >

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir