Ályktun og áskorun frá Kennarafélagi FNV
Kennarafélag Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra fundaði þriðjudaginn 29. október til stuðnings leikskólakennurum í Ársölum og sendi í kjölfarið eftirfarandi ályktun og áskorun til sveitarstjóra, sveitarstjórnar og sviðsstjóra fjölskyldusviðs Skagafjarðar.
Til sveitarstjóra sveitarfélagsins Skagafjarðar og fræðslusviðs Í yfirstandandi kjaradeilu Kennarasambands Íslands og viðsemjenda þeirra hjá ríki og sveitarfélagi er svo komið að gripið hefur verið til verkfallsaðgerða af hálfu KÍ. Hér á Norðurlandi vestra eru það starfsmenn leikskólans Ársala í Félagi leikskólakennara sem taka baráttuna fyrir hönd allra félagsmanna KÍ óháð skólastigi. Í einföldu máli snýst kjaradeilan um að meta kennaramenntað starfsfólk allra skólastiga að verðleikum. Kennarafélag Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra harmar því þá afstöðu sveitarfélagsins Skagafjarðar að taka undir sjónarmið Sambands íslenskra sveitarfélaga í yfirstandandi kjaradeilum. Með því að samþykkja sjónarmið SÍS hefur sveitarfélagið gert tilraunir til að halda úti leikskólastarfi í leikskólanum Ársölum í deildum þar sem deildarstjórar eru í verkfalli. Afstaða KÍ til slíkra aðgerða, á grundvelli reglna um verkföll, er að þar sé um skýr verkfallsbrot að ræða. Er það von okkar að sveitarfélagið endurskoði þessa afstöðu sína og mæti starfsmönnum sínum af auknum skilningi og samningsvilja við samningaborðið.
Fyrir hönd Kennarafélags Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Sara Nielsdóttir, formaður KFNV Guðbjörg Einarsdóttir, ritari KFNV Ágúst Ingi Ágústsson, gjaldkeri KFNV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.