Aldrei fleiri útskrifast á einu ári

Útskriftarhópurinn. MYND ÁSTRÍÐUR EINARSDÓTTIR
Útskriftarhópurinn. MYND ÁSTRÍÐUR EINARSDÓTTIR

Brautskráning Háskólans á Hólum að hausti fór fram föstudaginn síðastliðinn, 11. október og hafa aldrei verið fleiri brautskráningar að hausti en nú. Alls voru 50 nemendur brautskráðir að þessu sinni. Í vor voru brautskráðir 43 nemendur svo þetta er metfjöldi.

Af þeim sem brautskráðust núna voru 32 frá fiskeldis- og fiskalíffræðibraut. Þar af luku 27 diplomanámi í fiskeldi og 5 luku meistaranámi í MarBio, sem er samnorrænt nám um framleiðslu og nýtingu sjávarafurða. Einnig voru 18 brautskráðir frá ferðamáladeild. Þar af luku tveir diploma í ferðamálafræði, ein lauk BA í stjórnun ferðaþjónustu og móttöku gesta og ein lauk MA í ferðamálafræði. Einnig voru 14 brautskráð frá ferðamáladeild úr meistaranámi NOFRI, sem er samnorrænt nám í útvistarfræði, en þeirra brautskráningarathöfn fór fram við samstarfsháskóla í Noregi í sumar. Nemar hestafræðideildar brautskrást flestir að vori og því var ekki verið að brautskrá nema frá þeirri deild núna.

Alla jafna eru nemendur fiskeldis- og fiskalíffræðideildar fjölmennastir við haustbrautskráningar eins og einnig var að þessu sinni, en deildin var þar að auki í sviðsljósinu núna vegna þess að um þessar mundir eru liðin 40 ár frá því að nám í fiskeldi hófst á Hólum. Tumi Tómasson, sem áður kenndi við skólann, hélt erindi um upphaf kennslu í fiskeldisfræði og einnig hélt Eva Kuttner, lektor við Háskólann á Hólum, erindi um stöðu fiskeldis í dag. Að athöfn lokinni bauð háskólinn upp á veglegar kaffiveitingar.

Það var ánægjulegt að sjá hversu mörg sáu sér fært að fagna deginum þrátt fyrir snemmtæka vetrarkomu og við óskum öllum brautskráðum nemum til hamingju með áfangann.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir