Aldís María með sigurmarkið gegn Keflavík

Aldís María gerir sigurmarkið gegn Keflavík í dag. Hún var þá ekki búin að vera lengi inni á vellinum. Á neðri myndinna fagna Stólastúlkur sigurmarkinu. MYNDIR: SIGURÐUR INGI
Aldís María gerir sigurmarkið gegn Keflavík í dag. Hún var þá ekki búin að vera lengi inni á vellinum. Á neðri myndinna fagna Stólastúlkur sigurmarkinu. MYNDIR: SIGURÐUR INGI

„Þessi var risastór og mikilvægur fyrir okkur. Mér fannst þessi leikur spilast nokkurn veginn eins og við vildum. Náðum fyrsta markinu sem var mjög mikilvægt og heilt yfir þá fékk Keflavík ekkert færi af viti í leiknum fyrir utan markið. Við erum mjög ánægð með varnarleikinn í heild sinni og sóknarleikurinn var þokkalegur og við fengum okkar færi eins og venjulega. Virkilega sterkt að skora tvö góð mörk,“ sagði Donni þjálfari Stólastúlkna eftir mikilvægan 2-1 sigur á liði Keflavíkur í fyrstu umferð úrslitakeppni neðrii liðanna í Bestu deildinni.

Leikið var við ágætar aðstæður á Króknum, hlýtt en smá sunnanvindur. Lið Tindastóls var sterkari aðilinn í leiknum og skapaði sér fleiri færi og sérstaklega voru þær Jordyn og Birgitta skeinuhættar. Fyrsta markið kom á 23. mínútu en þá lagði Jordyn boltann út til hægri á Birgittu sem straujaði sinn varnarmann, sendi boltann inn á teiginn þar sem Jordyn var mætt og stýrði boltanum í fjærhornið. Gestirnir jöfnuðu á 39. mínútu í kjölfar þess að Stólastúlkur náðu ekki að hreins almennilega frá. Boltinn barst á Melanie Rendeira komst skrefinu inn fyrir Birgittu og potaði síðan boltanum yfir Monicu sem kom út á móti henni og í autt markið. Áfram héldu Stólastúlkur að sækja og Laufey komst nálægt því að gera mark fyrir hlé, setti boltann í þverslána. Jafnt í hálfleik.

Í síðari hálfleik voru það heimastúlkur sem bönkuðu á dyrnar hjá Keflvíkingum en eins og stundum áður í sumar var það Vera Varis sem kom til dyranna og hleyptu engum inn. Jordyn fékk 3-4 góð færi til að skora og það var ekki fyrr en á 79. mínnút sem Stólastúlkur uppskáru svo sem þær sáðu. Þá komst Jordyn í færi, Vera Varis varði en boltinn barst á Aldísi Maríu sem skóflaði honum í markið – risamark fyrir Stólastúlkur og Aldísi sem er búin að vera að glíma við meiðsli í nær allt sumar. Lið Tindastóls fékk færi til að gera út um leikinn en inn vildi boltinn ekki oftar og lið Tindastóls kláraði leikinn af fagmennsku – héldu ágætlega í boltann og gáfu engin færi á sér.

Ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið

Lið Tindastóls er þá komið með 16 stig en Keflavík og Fylkir eru með tíu. Lið Keflavíkur er í nánast vonlausri stöðu en Fylkir mætir Stjörnunni annað kvöld. Allt getur því gertst ennþá og í raun alls ekki öruggt að 16 stig – og jafnvel 19 stig – dugi liði Tindastóls til að halda sæti sínu í deildinni. Á laugardaginn mætir lið Fylkis í heimsókn á Krókinn og þá verður eflaust hart barist.

Feykir heyrði hljóðið í Donna að leik loknum og spurði m.a. hvort stelpurnar hefðu ekki átt að skora fleiri mörk í dag. „Við fengum færi til að skora fleirri mörk jú, en tvö dugðu i dag sem betur fer. Það er mjög jákvætt að við erum að skapa þónokkuð af færum.“

Viltu hrósa einhverum leikmanni sérstaklega í dag? „Ég myndi segja að liðsheildin hafi verið stórgóð í dag og allir leikmenn áttu flotta frammistöðu heilt yfir. Vinnuframlagið og hugarfarið alveg geggjað.“

Nýi leikmaðurinn, Erica Cunningham, spllaði ekki í dag, hvað veldur? „Ég er mjög ánægður með þær sem hafa verið að spila og heildarbrag liðsins svo það var óþarfi að raska því. Auk þess er hún tæp í ökkla eftir æfingu i gær.“

Hvað finnst þér um að leikur Stjörnunnar og Fylkis hafi ekki verið spilaður á sama tíma og leikurinn á Króknum? „Mér finnst það sérstakt að leikirnir séu ekki á sama tíma, þætti það eðlilegast og hreinlega veit ekki ástæðuna fyrir því,“ segir Donni að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir