Afnám tollfrelsis minni skemmtiferðaskipa þegar farið að hafa neikvæð áhrif
„Höfnin hérna er búin að vera að byggja upp komur skemmtiferðaskipa til Skagafjarðar og á næsta ári var þegar búið að bóka tíu komur á Sauðárkrók og fimm á Hofsós,“ sagði Dagur Þór Baldvinsson, hafnarstjóri Skagafjarðarhafna, þegar Feykir innti hann eftir því hvort hann hefði áhyggjur af afleiðingum þess að um áramótin er stefnt að því að tollfrelsi minni skemmtiferðaskipa verði afnumið. Dagur sagðist hafa miklar áhyggjur af þessu og nú þegar hafi eitt skip afboðað komu sína vegna þessa.
Í Vikublaði Akureyringa er haft eftir Jóhönnu Tryggvadóttur, verkefna- og markaðsstjóra Hafnasamlags Norðurlands að það sé augljóst að afnám tollfrelsis minni skemmtiferðaskipa, eða leiðangursskipa, verði skaði fyrir landsbyggðina. „Sérstaklega minni staði þar sem skipin skipta miklu máli fyrir samfélagið,“ segir hún. Dagur Þór staðfestir að öll þau skip sem hafa heimsótt Sauðárkrók síðustu ár séu í þessum flokki skipa og telur mögulegt að þau hreinlega hætti að koma til hafnar í Skagafirði ef af þessum reglubreytingum íslenskra stjórnvalda verður.
Í frétt Vikublaðsins kemur fram að fulltrúar Hafnasamlags Norðurlands hafi í liðinni viku sótt Seatrade Cruise ráðstefnuna á Malaga ásamt forsvarsmönnum annarra hafna landsins, umboðsaðilum og ferðaskrifstofum undir hatti Cruise Iceland. „Fundað var með öllum helstu skipafélögunum skemmtiferðaskipanna og var afnám tollfrelsis hringsiglinga að sögn Jóhönnu mikið til umræðu,“ segir í fréttinni.
„Þessi minni leiðangursskip eru með færri farþega en mörg þeirra eru lúxus skip og farþegar eyða miklu fé í landi. Einnig eru mikið af náttúruvísindafólki um borð í þessum skipum. Mikið er um fræðslu og fyrirlestra fyrir farþega en oft eru líka vísindamenn um borð sem taka sýni til rannsókna á stöðum sem ekki er möguleiki að komast á, nema með þessum skipum. Þetta eru þar af leiðandi kannski einmitt þeir farþegar sem við viljum fá hingað til lands,“ segir Jóhanna.
Ljóst er að ef verður af þessum breytingum þá verður það talsverður skellur fyrir hafnirnar á minni ferðamannastöðum og fyrir uppbyggingu ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.