Æfingaleik kvennaliðs Tindastóls frestað
Til stóð að kvennalið Tindastóls, sem mun stíga sín fyrstu spor í efstu deild eftir tvær vikur, ætti að spila æfingaleik við Stjörnuna í kvöld en leiknum hefur verið frestað vegna meiðsla og veikinda sem herja á hóp Tindastóls. Samkvæmt heimildum Feykis er verið að reyna að koma á koma leiknum á að nýju eftir viku en ákvörðun liggur ekki fyrir.
Þá er sömuleiðis verið að vinna að því að koma á æfingaleik hér heima í Síkinu áður en Bónus deildin rúllar af stað.
Kvennaliðið hefur þegar spilað tvo æfingaleiki í september. Fyrst mættu stelpurnar liði Hauka í Hafnarfirði og þar reyndust heimastúlkur of stór biti fyrir lið Tindastóls sem var þá nýkomið saman en eins og körfuboltaunnendur ættu að víta þá eru fimm erlendir leikmenn í liði Tindastóls auk íslenska kjarnans og því dágott púsl sem Israel og Hlynur Freyr eru með í höndunum.
Annar leikurinn fór fram í Stykkishólmi þar sem lið Snæfells var mótherjinn. Snæfell féll sem kunnugt er niður úr efstu deild eftir einvígi við 1. deildar lið Tindastóls í vor og þær reyndust auðveld bráð í þetta skiptið, lokatölur 46-87 fyrir Tindastól.
Eitthvað virðist vandkvæðum bundið að fá andstæðing til að mæta á Krókinn en stuðningsmenn eru eflaust spenntir að berja lið Tindastóls augum. Það hefðu kannski margir talið að æfingaleikir milli grannanna í Tindastóli og Þór Akureyri hentaði báðum liðum vel en einhver núningur virðist vera milli félaganna þannig að það hefur ekki gengið eftir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.