Aðeins 881 tonn eftir af aflaheimildum strandveiðitímabilsins
Á vefnum 200 mílur á mbl.is segir að vísbendingar séu um að Fiskistofa muni stöðva strandveiðar í næstu viku, en óljóst er hvort síðasti veiðidagur verði á miðvikudag eða fimmtudag. Eins og staðan er núna er aðeins 881 tonn eftir af þeim 2.000 tonnum sem matvælaráðherra undirritaði breytingar á þann 27. júní sl.. Með aukningunni fór heildarráðstöfun í þorski til strandveiða úr 10.000 tonnum upp í 12.000 tonn.
Þá segir einnig að í júlí hefur þorskaflinn hingað til verið um þúsund tonn á viku eða 257 tonn á dag og mun taka 3,4 daga að klára aflaheimildirnar verði aflinn eins í næstu viku. Þorskaflinn hefur hins vegar verið að meðaltali 285 tonn á strandveiðitímabilinu öllu sem hófst 2. maí og verði aflinn slíkur tekur 3,1 dag að klára heimildirnar.
Aðstæður til veiða verða góðar eftir helgi ef marka má veðurspá. Veðurstofan gerir ráð fyrir að á mánudag og þriðjudag verði hæg norðlæg eða breytileg átt og bjart með köflum, en sums staðar líkur á þoku eða súld við sjávarsíðuna. Á miðvikudag verður norðaustlæg átt með vætu víða um land. Þá gerir sjólagsspá Vegagerðarinnar ráð fyrir fremur litlum öldugangi og sléttum sjó víða. Með hagstæð skilyrði til sóknar og lítinn kvóta eftir er ekki ólíklegt að mikill fjöldi strandveiðibáta munu sækja sjóinn eftir helgi. Fari svo að strandveiðar verði stöðvaðar að loknum miðvikudegi 17. júlí eða fimmtudegi 18. júlí er ljóst að strandveiðar ársins entust aðeins lengur en í fyrra en ekki jafn lengi og 2022. Á síðasta ári voru strandveiðar stöðvaðar frá og með 12. júlí en frá og með 21. júlí sumarið 2022.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.