Rabb-a-babb 108: Arnrún Halla

Nafn: Arnrún Halla Arnórsdóttir.
Árgangur: 1977.
Fjölskylduhagir: Gift Bergmanni Guðmundssyni grunnskólakennara,börnin eru Bergþóra Huld 16ára menntaskólanemi í MA, Muggur 9ára og Hugrún Birta 6ára Árskólanemar. Auk þess eru á heimilinu kötturinn Skoffín og hundurinn Bilbó.
Búseta: Sauðárkrókur.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Dóttir Ernu Benediktsdóttur, heimilisfræðikennara og norður-þingeyings og Arnórs Benónýssonar framhaldsskólakennara og Suður-Þingeyings. Alin upp með vetursetu í Reykjavík en öll sumur á Norðurlandi.
Starf / nám: Hjúkrunarfræðingur með masterspróf í heilbrigðis-og lífsiðfræði, háskólakennari og nú í doktorsnámi í hagnýtri siðfræði í Háskóla Íslands.
Hvað er í deiglunni:  Ala upp börnin mín, siða hund, skrifa doktorsritgerð, jólastússast og fara í fundaferð til höfuðborgarinnar.

 Hvernig nemandi varstu? Ég var seinþroska og einbeitingarlítil,  en metnaðarfull.

 Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Svitinn að leka niður bakið undir upphlutnum og fermingarkirtlinum við gönguna út úr Háteigskirkju.

 Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Dansari eða prófessor

Hvað hræðistu mest? Að eitthvað komi fyrir börnin mín.


Besti ilmurinn? Lyktin af krökkunum mínum þegar þau koma inn eftir langa útiveru á fallegum sumardegi.

 Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Úff, Mariu Carey, Roxette, Queen, U2 og eitthvað íslenskt t.d. Ný dönsk og Sálina….. að ógleymdum Páli Óskari!

 Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Don´t Stop Me Now með Queen.

 Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Criminal Minds, The Blacklist, NCIS, Orðbragð.

 Besta bíómyndin? Philadelpia, án nokkurs vafa, átakanleg, falleg og réttlætishvetjandi. Engin mynd hefur haft eins mikil áhrif á mig og hvatt mig til að vera ætíð meðvituð um að vera góð manneskja.

 Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Anitu Hinriksdóttur

 Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Að finna hluti, þar nær mér enginn í afköstum og snerpu.


 Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Að vera ekki fyrir…og baka skúffuköku.

 Hættulegasta helgarnammið? Kaffisúkkulaði.

 Hvernig er eggið best? Steikt báðu megin.

 Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Óþolinmæðin, einfeldnin og hve lokuð ég get verið.

 Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Ómerkilegheit, óheiðarleiki, baktal og þröngsýni.

 Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Hver er sinnar gæfu smiður.


 Hver er elsta minningin sem þú átt? Uppá eldhúsbekk hjá ömmu að borða appelsínu með sykurmola í miðjunni.

 Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Svampur Sveinsson.

 Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? David Hume, sem var breskur heimspekingur. Og vegna þess að hann vann við það að hugsa allan daginn og skrifa bækur og krifja hvað það er að vera manneskja.

 Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Isabel Allende, því hún hittir naglann alltaf á höfuðið þegar kemur að súrsætum raunveruleika mannlegs eðlis, Maja, nýjasta bókin hennar er gott dæmi.

 Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Kommón, er það líklega.

 Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Dalai Lama og Vigdís Finnbogadóttir.

 Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég færi fyrir tíma rafmagns til að fá að upplifa tæknilausa veröld, væri  fínt ef það væri á Spáni því þá gæti ég etv.líka rekist á einhverja forfeður mína.

 Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Ósögð orð.

 Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...
til Hawaii!

 Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Sterkt kaffi, svartar ólfíur og góða bók.


Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir