Rabb-a-babb 100: Stebbi Jóns

Nafn: Stefán Jónsson.
Árgangur: 1974, sá besti.
Fjölskylduhagir: Í sambúð annan hvern mánuð (með Hrefnu Reynisdóttur ásamt fjórum afkvæmum), fjarbúð hinn.
Búseta: Sauðárkrókur, grasið er ekkert grænna hinumegin.
Hverra manna ertu? Tel mig vera sjómanna og hef helgað lífinu eftir því, er að mestu alinn upp á bryggjunni á Sauðárkróki.
Starf / nám: Sjómaður og fór létt með námið.
Hvað er í deiglunni? Að koma körfubolt-anum á Sauðárkróki í hæstu hæðir.

Hvernig nemandi varstu? Mér fannst ég frábær nemandi, ekki viss að Björn Sigurbjörnsson sé alveg sammála mér.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum?
 Man að afi minn kom í kaffi ásamt bróður sínum (tvíburar), skildi ekki fyrr en nokkrum mánuðum seinna afhverju afi var alltaf að skipta um föt í veislunni.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
 Held að ég hafi alltaf horft mikið til sjávar, það þótti töff að vera sjómaður í þá daga.

Hvað hræðistu mest? Að eitthvað hendi nánustu.

Besti ilmurinn? Það er lyktin af ný hengdum sígnum fiski, maður hugsar sér gott til glóðarinnar við að hengja hann upp.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Nikita með Elton John. Maður var búinn að hlusta á það í bíóinu hjá Boggu og Guðmundi síðan maður var 8 ára, þetta var bara lagið. Þökk sé Boggu og Guðmundi.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Þeir söngvarar sem færu á undan mér þyrftu að hafa verið asskoti slappir svo ég færi á sviðið.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Missi oftast af öllu í sjónvarpinu, þá líka fréttunum.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Arnari Frey syni mínum.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Að tuða, er Evrópumeistari í því.

Hvert 
er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Þótt að fáir myndu trúa því þá eru öll verk í eldhúsinu mín snilldarverk. Ég hertek eldhúsið annan hvern mánuð, en oftar en ekki enda þau verk á 453 6454.

Hættulegasta helgarnammið? Það er nú frekar svona fljótandi það nammi.

Hvernig er eggið best? Áður fyrr þóttu þau góð bæði soðin og steikt. Í dag eru þau víst best með rafhlöðu.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Held því fyrir mig sjálfan í þetta sinn.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Reyni eftir mesta móti að láta ekki aðra fara í taugarnar á mér.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Það er ekkert annað.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Hún er klárlega þegar ég var fastur við snúrustaurinn í Birkihlíð 1. Það er víst staðreynd að maður festist ef maður sleikir í frosti.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Steinríkur frændi minn.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Myndi ekki vilja vera frægur, alltof mikið vesen.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Les ekki bækur, það er mun fljótlegra að horfa bara á myndina.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Það er ekkert annað.

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Björg Pálsdóttir amma mín og besti vinur.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Færi aftur í grunnskólann og myndi reyna að leiðrétta nokkra „miskilinga“.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Fast hann sótti sjóinn og gerir það enn.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu… 
Það er ekki séns að ég gæti hoppað uppí flugvél, það er fullreynt. Kom einu sinni í gamla daga á endahraða í flugstöðina heima og átti ekki pantað flug, þurfti að komast suður og það í hvelli. Man ekki alveg hver var að vinna en ég rauk að afgreiðsluborðinnu og hrækti útúr mér við starfsmanninn að ég ætlaði að hoppa suður. Hann snéri sér við og sagði alveg rólegur: -Láttu mig ekki trufla þig, brautin er auð.

Ef þú ættir að dvelja aleinn á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? 
Veiðistöng, kveikjara og Hustler (afmælisritið – það er 127 blaðsíður). ;)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir