Rabb-a-babb 99: Anna Pála
Nafn: Anna Pála Gísladóttir.
Árgangur: 1972.
Fjölskylduhagir: Ég bý með sandkassaástinni minni honum Eyjólfi og á með honum fjóra stráka, Hólmar Örn, Trausta Má, Sverri Rafn og Kára Rafnar (og Húna hund). Trausti Már og Kári Rafnar búa hjá okkur en Hólmar er búsettur í Þýskalandi og litli Sverrir okkar er fallegasti engillinn á himni.
Búseta: Ég bý í Kópavoginum, það er gott.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Ég er dóttir Díu (Dýllari) og Gísla (Berbellingur). Ég er fædd í Vestmannaeyjum en flutti 10 ára til Sauðárkróks.
Starf / nám: Grunnskólakennari í Lindaskóla.
Hvað er í deiglunni: Klára foreldraviðtöl og þemaviku í vinnunni. Svo er planið að liggja í leti og faðma fjölskylduna.
Hvernig nemandi varstu? Ég var ágætis nemandi, gat verið uppátækjasöm og eitthvað var nú minnst á mas á öllum mínum vitnisburðarblöðum
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Ég man ekkert sérstaklega mikið eftir þessum degi þar sem ég var sárlasin. Ég man samt að þegar búið var að dæla í mig verkjalyfjum bað Minna Bang Birgittu, sem var á eftir mér í röðinni, að halda í mig svo ég færi ekki að svífa. Það muna aftur á móti allt of margir eftir fermingarfötunum mínum…
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég ætlaði fyrst að vera búðakona, svo var það hárgreiðslukona, lögfræðingur og að lokum heillaði kennslan mig.
Hvað hræðistu mest? Úff! Ég er voðaleg skræfa og hræðist mjög, mjög margt en að sjálfsögðu hræðist ég mest að missa þá sem ég elska.
Besti ilmurinn? Útilykt af nýþvegnum rúmfötum og ungbarnalykt.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ég var búin að keyra svolítið áður en ég fékk prófið þannig að þetta rennur allt saman…ég efast ekki um að Madonna hafi verið spiluð og Whitney Houston
Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Líklega einhverja lagleysu þar sem ég væri ekki með sjálfri mér ef ég tæki þátt í slíku.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ég missti helst ekki af Broen. Landinn er líka mjög skemmtilegur þáttur.
Besta bíómyndin? Grease kemur fyrst upp í hugann, trúlega vegna þess að það er fyrsta myndin sem ég man eftir að hafa séð í bíó og hef horft oftast á hana af öllum myndum (Anna Pála 19 tonn!).
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Er það nú spurning!
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Ég fæ mjög litla samkeppni í heimilisstörfunum. Ég er þó best af öllum í að finna “týnda” hluti.
Hættulegasta helgarnammið? Ég borða súkkulaðirúsínur eins og aðrir borða poppkorn
Hvernig er eggið best? Eggjakaka klikkar aldrei
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ógurleg málgleði
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Innihaldslaust smjaður og óheiðarleiki almennt. Óstundvísi er líka óþolandi.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Þeim var ég verst er ég unni mest
Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég á ýmsar slitróttar minningar frá því að ég var býsna ung en ein af þeim sem snertu mig mest var þegar Áslaug frænka mín flutti til Eyja og ég var að springa úr spenningi en svo vildi hún ekki tala við mig til að byrja með… En síðan erum við líklega búnar að bæta það upp og gott betur.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Mér finnst Línan alltaf frábær
Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Ég myndi ekki fyrir nokkurn mun vilja vera fræg. Ég væri samt til í að vera í saumaklúbbi með Ellen DeGeneres, hláturinn lengir lífið.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Ég les mjög mikið og er þeim eiginleikum gædd að um leið og ég hef lokið lestri get ég byrjað upp á nýtt þar sem ég man nánast ekkert. En fyrsta bókin sem dettur í hug er Bókaþjófurinn líklega af því að ég er nýbúin að vola yfir bíómyndinni. Ég bíð líka alltaf spennt þegar ég veit að Vilborg Davíðsdóttir er að fara að senda frá sér bók.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Eins og ég segi…
Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Það er ekkert grín að velja eina í öllum heiminum en fyrir Krókinn var það án efa amma Dýlla, án hennar væru engir Dýllarar.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Víða er þvottur brotinn
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... beint að hitta frumburðinn sem ég sakna ógurlega. Ef ég gæti komið við í himnaríki færi ég líka þangað.
Ef þú ættir að dvelja alein á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Prjónadót, Iphone og klósettpappír.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.