Rabb-a-babb 85: Muggi
Nafn: Guðmundur St. Ragnarsson, betur þekktur sem ,,Muggi“ á gömlu heimaslóðunum.
Árgangur: Ég kom í heiminn á hinu heilaga ári 1969.
Fjölskyldurhagir: Faðir Ragnars Darra (18) og Gylfa Steins (15). Á heimilinu eru 2 norskir skógarkettir, Atlas von Ásvallagata og Ottó Fýrsson.
Búseta: Ásvallagata, 101 Reykjavík.
Starf / nám: Ég starfa sem lögmaður í Reykjavík hjá Versus lögmönnum og Verjendum. Lögfræðingur frá HÍ og stúdent frá FáS (nú FNV).
Bifreið: Gráleit af millistærð, ættuð frá landi sólarinnar.
Hestöfl: Mættu vera fleiri.
Hvað er í deiglunni: Að verja mann og annan.
Hvernig hefurðu það? Svona B+ takk fyrir.
Hvernig nemandi varstu? Ég fékk ávallt topp einkunn fyrir hegðun enda vel upp alinn við ósa Blöndu. Annars oftast B+ nemandi.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Að bekkjarbróðir minn og pabbi hans voru mjög uppteknir af því að skoða og læra á fermingargjöfina (Casio tölvuúr) í athöfninni miðri. Annars var tilfinningin bara góð að staðfesta skírnina.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Íþróttakennari.
Hvað hræðistu mest? Að himnarnir falli á hausinn á mér og að bensínlíterinn hækki á morgun, og hinn og hinn…
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir (eða besta)? Back in Black (AC/DC). Sú besta er The Bends með Radiohead.
Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kariókí? Það er ekki séns! Mér þykir vænt um fólk.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? Mér finnst gaman af American Idol sem er ákveðin þversögn í ljósi síðasta svars.
Hvað fer helst í innkaupakröfuna sem ekki er skrifað í tossamiðann? Fanta, 2 lítra.
Hvað er í morgunmatinn? Hafragrautur með rúsínum og eplum.
Uppáhalds málsháttur? Víst ávallt þeim vana halt, að vera hress og drekka malt!
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Viggó Viðutan klárlega. Finn líka til samkenndar með Ástríki gallvaska þótt ég noti ekki stera eða fíkniefni.
Hver er uppáhalds bókin þín? Biblían er bók bókanna. Lord of the Rings kemur næst.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu… Hef langað til að fara til Colorado og Utah, fylkja í Bandaríkjunum.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Hvatvís og að eiga erfitt með að segja nei. Svara með tveimur svörum þegar ég er spurður einnar.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Hroki og þröngsýni.
Enski boltinn – hvaða lið og af hverju? Liverpool. Liðið valdi mig - óumflýjanleg en yndisleg örlög árið 1974.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Lionel Messi er ótrúlegur íþróttamaður, goðsögn í lifandi lífi og heilsteypt persóna. Michael Jordan var frábær þegar hann var í NBA.
Heim í Búðardal eða Diskó Friskó? Það bíður mín ekkert brúðarval í Búðardal þannig að það hlýtur að vera Diskó Friskó enda ljómandi hressandi.
Hver var mikilvægasta persóna 20. aldarinnar að þínu mati? Winston Churchill (og líka J.R.R. Tolkien).
Ef þú ættir að dvelja aleinn á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? iPhone með GPS, Biblíuna og vel byggðan árabát.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? „Ég vildi bara vera ofurhetja – saga lögfræðings úr Húnaþingi.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.