Rabb-a-babb 210: Ugla Stefanía

Ugla Stefanía. MYND AÐSEND
Ugla Stefanía. MYND AÐSEND

Nafn: Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir.
Árgangur: 1991.
Fjölskylduhagir: Sambúð, með einn hund og þrjá ketti.
Búseta: Búsett með maka í Bretlandi, en með annan fótinn á Íslandi.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Fædd og uppalin á Stóra-Búrfelli í Austur Húnavatnssýslu – foreldrar eru Jón Gíslason og Kristjana Stefanía Jóhannesdóttir.
Starf / nám: Kynjafræðingur og sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks.
Hvað er í deiglunni: Það er ýmislegt. Ég starfa sem stendur sem dálkahöfundur hjá dagblaðinu Metro í Bretlandi, ásamt því að reka kvikmyndaverkefnið My Genderation, sem snýr að því að búa til heimildarmyndir og annað efni um transfólk og reynslu þeirra. Svo er ég líka á fullu í réttindabaráttu fyrir hinsegin fólk bæði í Bretlandi og á Íslandi. Ætli ég skelli mér ekki bara í pólítík fyrir einhvern sniðugan flokk á næstu árum?

Rabbið:

Hvernig nemandi varstu? Ég var mjög samviskusamur nemandi og gekk alltaf mjög vel – allavega að eigin sögn! Ég var allavega fengin til að flytja útskriftarræðu og fékk verðlaun fyrir góðan árangur í ensku, þannig að ég hlýt að hafa verið að gera eitthvað rétt.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Finnst nú eiginlega eins og það sé heil öld síðan! En ætli það séu ekki skelfilegu fermingarmyndirnar af mér sem hanga enn uppi heima í stofu í sveitinni. Foreldar mínir spurðu hvort þau ættu ekki að taka þær niður þegar ég kom út úr skápnum sem trans og fór í gegnum kynaðlögunarferli – en mér fannst það nú alveg óþarfi, myndirnar skána ekkert þó þær séu ofan í skúffu.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég ætlaði mér að verða dýralæknir – en lífið tók nú víst aðeins aðra stefnu! Held að það sem hafi aftrað mér helst þar var að ég myndi eiga svo erfitt með að aflífa eða svæfa dýr – sem er því miður oft stór hluti af starfi dýralækna. Það er samt aldrei að vita hvort ég láti ekki gamlan draum rætast og fari í nám.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Ég lék mér nú með allskonar leikföng – en ætli uppáhaldið sem ungur krakki hafi ekki verið öll loðdýrin mín sem töldu eflaust á nokkrum hundruða undir lokin! Svo átti ég líka fjórar dúkkur sem ég kallaði alltaf „konurnar mínar“.

Besti ilmurinn? Ég elska reykelsi – er alltaf með reykelsi sem heita nag champa heima hjá mér. Kveiki á þeim helst daglega.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Við hittumst á ráðstefnu í borginni Bologna á Ítalíu. Makinn minn Fox var ráðinn til að taka viðtöl við fólk á ráðstefnunni í tilefni 10 ára afmælis samtakanna Transgender Europe, og ég var ein af viðmælendunum hans. Okkur kom rosalega vel saman og það æxlaðist þannig að ég missti af fluginu mínu aftur til Íslands – og endaði á því að fara með Fox til Brighton í Englandi. Ég hef eiginlega bara verið þar síðan!

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Uppáhalds hljómsveitin mín hefur alltaf verið Evanescence – en flest ættu nú að kannast við lagið Bring Me To Life sem þau gáfu út 2003. Ég er ennþá mikill aðdáandi og fór á tónleika með þeim í fyrsta skipti fyrir nokkrum árum – og skældi allan tímann af hamingju.

Hvernig slakarðu á? Ég er mikill nörd, og hef alla tíð haft áhuga á tölvuleikjum, borðspilum og spunaspilum. Finnst ekkert betra en að setjast fyrir framan tölvuna á kvöldin og spila tölvuleiki eða spila spunaspil (t.d. Dungeons and Dragons) með vinum. Svo er ég líka algjör Star Trek nörd og elska að horfa á Star Trek þætti – bæði gamla og nýja. Captain Janeway í Star Trek: Voyager er auðvitað uppáhalds, enda horfum ég og mamma á hana í sjónvarpinu í gamla daga.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ég verð nú að viðurkenna að ég á ekki sjónvarp – en ég horfi aðallega á þætti á netinu í tölvunni. Ég fylgist þar grannt með þáttum eins og Queer Eye, RuPaul‘s Drag Race og raunveruleikaþáttum á borð við Real Housewives. Svo auðvitað missi ég aldrei af Eurovision.

Besta bíómyndin? Ég á nú eiginlega ekki uppáhalds bíómynd eins hallærislegt og það hljómar. Er mikið meira fyrir að horfa á þætti - en annars reyni ég alltaf að horfa á Sister Act 1 og 2 í kringum jólin.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Mjög góð vinkona mín er Íslandsmeistari kvenna í frisbígolfi - sem mér finnst mjög merkilegt! Hún heitir Kolbrún Mist.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Ég þríf og skipulegg rosalega vel - ef það þarf að raða í geymslur eða skottið á bílnum eða eitthvað þá er ég alltaf best í það. Svo er ég líka frekar handlagin og sé um að gera við alls konar sem þarf að laga eða redda.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Undanfarin ár hef ég verið að reyna að fullkomna að gera heimatilbúna pizzu - held ég sé nú bara alveg að ná tökum á því að gera deigið allt rétt og safna saman góðu áleggi. Set rauðan lauk, shallot lauk, blaðlauk, döðlur, papriku, spergilkál, ananas og (stundum) jalapeno. Mjög góð blanda!

Hættulegasta helgarnammið? Ég borða nú eiginlega ekki nammi – en ef ég kaupi eitthvað þá eru það þristar eða hraun.

Hvernig er eggið best? Mér finnst það nú bara best spælt, helst ofan á brauð. Annars er líka snilld að gera svona Deviled Eggs, þar sem rauðan er tekin úr harðsoðnum eggjum, blandað saman, krydduð og sprautað aftur í. Hægt að gera allskonar!

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ég held að það sé hvað ég get verið þrjósk - fer stundum aðeins út í smá þvermóðsku.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Þegar að fólk getur ekki tekið til eftir sig eða klárað hluti sem þau byrja á. Finnst ekkert meira pirrandi en að þurfa að taka til eftir fólk.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Ég nota óspart: „Víða er pottur brotinn“.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Held það sé að vera niðri í fjárhúsum með geitunum og folaldinu sem ég átti.

Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Ég væri til í að vera Amy Lee í uppáhalds hljómsveitinni minni, Evanescence. Svo myndi ég líklega bara nýta daginn í að semja einhver lög og syngja.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Ég hef lesið svo margar bækur að það er erfitt að velja uppáhalds - en bók sem ég las um daginn sem var mjög góð var My Sister, The Serial Killer eftir Oyinkan Braithwaite. Hljómar kannski rosalega óhugnaleg, en mjög góð bók og lágstemmd miðað við titilinn.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Ég nota „jæja“ eins og mér sé borgað fyrir það.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Já, það er alveg spurning. Ætli ég myndi ekki bara fara aftur til risaeðlualdar til að sjá hvað þær voru glæsilegar? Og reyna að verða ekki að kvöldmat fyrir þær!

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Þegar ég kom út úr skápnum þá var sagt við vinkonu mína: „Af hverju getur hann ekki bara verið hommi eins og venjulegt fólk?“, sem ég hef hlegið af alla tíð síðan. Finnst það bara vera frekar lýsandi fyrir fáfræði fólks sem skilur ekki muninn á kynhneigð og kynvitund - en kynhneigð er hverjum þú laðast að og kynvitund hvernig þú upplifir þig. En já, ætli það verði ekki bara titillinn?

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu… Kannski ekki vinsæll ferðastaður en ég er búin að vera með Hjaltlandseyjar á heilanum undanfarið. Sá myndband þar sem stelpa var að bera fram allskomar gömul orð og það voru eiginlega bara sömu orð og við notum á íslensku. Hreimurinn þeirra er svona blanda af íslensku og skosku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir