Rabb-a-babb 206: Margrét Gísla
Nafn: Margrét Gísladóttir.
Árgangur: 1986.
Fjölskylduhagir: Gift Teiti Birni Einarssyni og saman eigum við synina Gísla Torfa og Einar Garðar.
Búseta: Geldingaholt í Skagafirði, en flytjumst í Mosfellsbæ eftir áramótin.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Dóttir séra Gísla Gunnarssonar og Þuríðar Kristjönu Þorbergsdóttur í Glaumbæ í Skagafirði þar sem ég er alin upp.
Starf / nám: Vinn hjá Bændasamtökum Íslands og er í MBA námi við Háskólann í Reykjavík.
Hvað er í deiglunni: Alltof mikið eiginlega. Við erum að flytja suður í byrjun nýs árs þar sem ég hef störf á nýjum vettvangi. Auk þess er ég að klára fyrstu önnina í MBA náminu og drengirnir báðir á leikskólaaldri svo dagarnir eru ansi þéttir um þessar mundir.
Rabbið:
Hvernig nemandi varstu? Mér gekk alltaf vel í skóla en í öllum umsögnum frá kennurum frá 6 ára aldri segir að ég sé ansi fljótfær og ég held það hafi lítið breyst. Ég átti það líka til að skipta mér af stjórn og skipulagi í samtölum við skólastjóra allt frá grunnskóla og upp í háskóla svo ég hef verið með sterkar skoðanir á öllu frá blautu barnsbeini – þeim líklega til ama.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Við Lilja Rún vinkona fermdumst saman og vorum í eins kjólum sem voru saumaðir á okkur. Alda á Króknum saumaði minn og það var alltaf gaman að fara til hennar í mátun. Svo er mjög eftirminnilegt hvað það var gott veður þennan dag.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég hef aldrei viljað festa mig við eitthvað eitt og var ekki komin á fermingaraldur þegar ég tilkynnti foreldrum mínum að það sem ég yrði þegar ég yrði stór væri ekki sérstaklega kennt í háskóla. Ég sá alltaf fyrir mér að vera í alls konar og það hefur sannanlega ræst.
Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Líklega bangsi sem heitir Stóri Bangsi og ég fékk frá vini pabba fyrstu jólin mín. Hann passar núna upp á Einar Garðar, yngri son okkar.
Besti ilmurinn? Það er ákveðin lykt í loftinu um kl. 3 á vornóttum, úti á túni í sauðburði. Dögg á grasinu, ró yfir öllu og þessi lykt. Gerist ekki betra.
Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Á fundi aðstoðarmanna ráðherra haustið 2014 þar sem við hittumst á kaffistofunni í forsætisráðuneytinu, þá að aðstoða ráðherra sitt hvors flokksins í ríkisstjórn.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Við Birna vinkona hlustuðum eiginlega bara á tvo diska á þessum tíma, Bítlana og Stuðmenn.
Hvernig slakarðu á? Mér finnst mjög gott að kjarna mig þegar ég er að keyra á milli Skagafjarðar og Reykjavíkur. Þá hlusta ég á hljóðbók og nýt þess að vera bara að keyra ein með sjálfri mér. Annars er góður matur og gott rauðvín í góðra vina hópi líka alltaf jafn góð slökun.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ég er forfallin aðdáandi Bachelor og það fer lítið framhjá mér sem snýr að þeim þáttum, hvort sem það er Bachelor, Bachelorette eða Bachelor in Paradise.
Besta bíómyndin? Midnight in Paris. Hún er svo hugljúf og uppfull af skemmtilegum persónum og samræðum.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Mér fannst Vala Flosadóttir brjálæðislega svöl þegar ég var lítil. Í dag fylgist ég lítið með íþróttum en finnst mikið til Más Gunnarssonar, sundkappa, koma.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Marga hluti í einu.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ýmsir kjúklingaréttir. Annars er Teitur meiri kokkur en ég.
Hættulegasta helgarnammið? Nammi er ekki hættulegt og einskorðast ekki við helgar hjá mér. Súkkulaði er ansi vinsælt.
Hvernig er eggið best? Steikt og sólin upp.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Óþolinmæði.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Hroki og fordómar.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Hver er sinnar gæfu smiður.
Hver er elsta minningin sem þú átt? Pínulítið minningarbrot af ættarmóti þegar ég var 2 ára. Tveir karlar, annar held ég að hafi verið afi í Brúnahlíð, klæddust trúðabúningum og voru í risastórum buxum.
Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Dwayne the Rock Johnson til að upplifa hvernig það er að vera einhvers konar mannlegt naut. Ég myndi líklega bara arka um bæinn og lyfta þungum hlutum og njóta þess svo að borða þessar 5.000 kaloríur sem hann þarf á hverjum degi.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Yrsa er í miklu uppáhaldi hjá mér og Bergsveinn Birgisson er líka skemmtilegur, en ég á engan uppáhaldsrithöfund. Ég las Kapítólu eftir E.D.E.N. Southworth fyrir nokkrum árum, sem er eftirminnilega skemmtileg, frábær bók fyrir allan aldur.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Ég hef staðið mig að því undanfarið að segja „sjáumstum” í stað sjáumst. Ákveðið orðskrípi og ég veit ekkert hvaðan ég tók þetta.
Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð (fyrir utan nánustu ættingja og af hverju)? Margréti Danadrottningu, Elizu Reid forsetafrú og Katrínu Jakobsdóttur. Þrjár þrælskemmtilegar konur og samræðurnar yrðu líklega mjög áhugaverðar.
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég efa að það séu mörg betri tímabil fyrir skoðanaglaða konu að vera uppi á, svo ég sé enga þörf á að fara neitt.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Skipulögð óreiða.
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til Ástralíu eða Nýja-Sjálands.
Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Ganga upp á Mælifellshnjúk, ferðast um skosku hálöndin og til Macchu Picchu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.