Rabb-a-babb 201: Gunnar Birgis

Gunnar í Mosó. AÐSEND MYND
Gunnar í Mosó. AÐSEND MYND

Nafn: Gunnar Birgisson.
Árgangur: 1994.
Fjölskylduhagir: Á yndislega kærustu sem heitir Velina og saman eigum við rúmlega eins og hálfs árs gamla stelpu sem heitir Anna Sóley.
Búseta: Mosfellsbær.
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Þorgerður Sævarsdóttir og Birgir Gunnarsson eru foreldrar mínir, alinn upp í Hólatúninu á Sauðárkróki. Þvílík gata!
Starf / nám: Starfa sem íþróttafréttamaður hjá RÚV og knattspyrnuþjálfari hjá Breiðabliki.
Hvað er í deiglunni: Sem stendur er ég að ranka við mér eftir alla törnina í kringum Ólympíuleikana. Forgjöfin hefur staðið í stað og það væri gaman að ná að grípa í golfkylfur áður en hann tekur að hausta.

Rabbið:

Hvernig nemandi varstu? Úff. Ég var skapmikill, hávær og prakkari allt í senn. En á sama tíma ágætlega metnaðarfullur. Bara plís ekki spyrja Ingu Huld og Huga Halldórs sömu spurningar!

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Það var púðursykurs marengs frá Ömmu Laugu sem var í ruglinu góð!

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Það breyttist nokkurn veginn dag frá degi. En gjarnan þegar ég og Sævar bróðir vorum að keppa í hinum ýmsu greinum í Hólatúninu átti ég það til að lýsa þar til ég hætti eða varð of tapsár, þannig ætli það hafi ekki legið beinast við að ég kæmi til með að starfa við íþróttaumfjöllun einn daginn.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Fatasláin í forstofunni heima var notuð daglega í körfubolta. Við tróðum hana niður ca. þúsund sinnum.

Besti ilmurinn? Ætli það sé ekki bara þegar Weber kóngurinn er búinn að henda einhverjum vel völdum sneiðum úr efstu hillu hjá KS á grillið.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Í íþróttahúsinu að Varmá hér í Mosfellsbæ, vorum bæði, og erum enn, fastagestir þar.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Fyrsta lagið sem ég rúntaði við var Mr. Blue Sky með Electric Light Orchestra. Annars er ég alæta á tónlist og gott ef næsta lag þar á eftir hafi ekki verið með Bubba.

Hvernig slakarðu á? Í faðmi fjölskyldunnar eða úti á golfvelli.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ef það er skíðakeppni í sjónvarpinu þá fer hún yfirleitt ekki fram hjá mér. Annars, því miður, hef ég staðið sjálfan mig að því að horfa á Love Island. Skil ekki hvernig það orsakaðist en á oft erfitt með að slökkva á því.

Besta bíómyndin? Coach Carter, veit ekki hvað það er en hún er inspírerandi og vel leikin. Smúllinn stendur alltaf fyrir sínu.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Konan mín er geggjaður íþróttamaður, erum í vandræðum með að finna pláss fyrir alla bikarana sem hún hefur lyft í blakinu í gegnum tíðina. Erlendis hugsa ég að skíðamaðurinn Petter Northug skori alltaf hátt hjá mér.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Ég vil svolítið gera hlutina þegar þeir henta mér, einhverjir myndu kalla þetta frestunaráráttu, ég hlusta ekki á það.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ég hlýt að fá að telja grillið með þarna, annars er ég í veseni!

Hættulegasta helgarnammið? Það er líklega fjandans bragðarefurinn.

Hvernig er eggið best? Skramblað með smá salt og pipar.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Það er líklega títtnefnd frestunarárátta sem ég vil þó meina að sé algjört rugl.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Neikvæðni og svartsýni.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Stefndu á tunglið og þú gætir gripið stjörnu í leiðinni.


Hver er elsta minningin sem þú átt? Ætli það sé ekki bara úr leikskólanum á Glaðheimum í góðu glensi með Ingva Rafni, Val Orra og Auðunni Blöndal, street bolti þar sem lítið var gefið eftir.

Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Ætli maður tæki ekki LeBron James og myndi skrifa undir hjá Tindastóli í körfunni. Hann myndi svo ranka við sér næsta dag með óuppsegjanlegan samning og græja loks titilinn heim í fjörðinn fagra.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Ég er lítið í bókunum nema það sé tengt þjálfun eða sjálfsævisögum. Síðasta bók sem ég las var Talent Code eftir Daniel Coyle.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Bæng!

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Ég væri til í að heyra í liðsmönnum ABBA sveitarinnar og spyrja þau hvað fór úrskeiðis.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Svo sem fátt sem ég myndi breyta. En ég væri til í að reyna að koma í veg fyrir alla meiðslasöguna mína í íþróttum á einhvern hátt.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Bingó á borði fjögur.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu… Akkúrat núna þrái ég að komast í gott frí, bara þar sem er sól og næs. Að vetri til væri svarið alltaf Noregur.

Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Væri til í að ferðast hringinn í kringum heiminn, komast á Ólympíuleika og fara holu í höggi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir