Rabb-a-babb 197: Lilja Hauks
Nafn: Hugrún Lilja Hauksdóttir.
Árgangur: 1990.
Fjölskylduhagir: Sjálfstæð kona.
Búseta: Vesturbær Reykjavíkur.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Ég er yngsta dóttir Hauks og Línu á Deplum. Ég ólst upp í fallegri Stíflunni og mun ávallt búa að því.
Starf / nám: Margmiðlunarhönnuður & ljósmyndari í markaðsgeiranum.
Hvað er í deiglunni: Eldgos, vor og betra veður.
Rabbið:
Hvernig nemandi varstu? Skellihlægjandi fiðrildi sem krotaði í allar stílabækur.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Ég fermdist 1. maí í Knappstaðakirkju og var eina fermingarbarnið í dalnum. Þann fallega vormorgun vöknuðu Fljótamenn við nýfallin snjó og var frekar napurt í óupphitraði kirkjunni svo spóaleggirnir í skrjáfþunnum fermingarkjólnum skulfu alla athöfnina.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Mér datt í hug að verða Arkitekt einusinni.
Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Kristrún systir saumaði handa mér dúkku sem var jafn stór og ég á þeim tíma, hún hét Heiða og var mér einstaklega kær alla æskuna.
Besti ilmurinn? Lyktin af rúmfötunum þegar þau eru nýkomin af snúrunni.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Geggjuð spurning! Ég eignaðist hljómplötuna Tímarnir okkarmeð Sprengjuhöllinni á CD á þessum tíma, sá geisladiskur var spilaður hring eftir hring og er ennþá í miklu uppáhaldi.
Hvernig slakarðu á? Ég næ hvað mestri sálarró þegar ég týni tímanum við að skapa eitthvað nýtt.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ég missi aldrei af skaupinu!
Besta bíómyndin? Forrest Gump, lífið er eitt stór súkkulaðibox.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Aron Bjarki Jósepsson meistari, samstarfsfélagi og knattspyrnumaður í KR fær þennan titil.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Þar sem ég bý með sjálfri mér á ég í engum vandræðum með að vera besti fagurkerinn í kotinu.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ég bý til alveg hreint framúrskarandi Lasagne.
Hættulegasta helgarnammið? Fjólublátt pottagull, þeir tengja sem tengja.
Hvernig er eggið best? Hleypt á toppnum á súrdeigsbrauði eins og Benedikt er þekktur fyrir.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ég á það til að ofhugsa hluti.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Alls konar snobb, alltaf stemnings-morð.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Þú ert vitund þín. Dýpsta vitund þín er vilji þinn. Vilji þinn skapar verk þín og verk þín skapa örlög þín. - Brihadaranyaka Upanishad IV.4.5
Hver er elsta minningin sem þú átt? Stofan á Syðri-Á, ég sat við hliðina á Nonna að spila á píanóið á meðan Abba frænka og mamma sötruðu kaffi inn í eldhúsi.
Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Ég væri til í vera Milly Bobby Brown í einn dag, leika í einni senu og fá mér svo tattoo.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Ljósmyndabækur eru mínir uppáhalds doðrantar og allt sem Ragnar Axelsson gerir er augnakonfekt.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? „Hvað eigum við að borða á eftir?“
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég myndi endurupplifa fallegt sumarkvöld í sveitinni í heyskap með pabba, setjast við eldhúsborðið á Deplum eftir langan dag með bóndabrúnku og sólbrunnið nef og fá heimatilbúinn mjólkurhristing að launum.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Tár, bros og hamingjan í öðru veldi.
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... rakleiðis til Danmerkur og heilsa upp á fólkið mitt þar.
Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Heimsækja Indónesíu,gefa út bók og halda listasýningu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.