Rabb-a-babb 196: Ragnhildur lögga

Ragnhildur. AÐSEND MYND
Ragnhildur. AÐSEND MYND

Nafn: Ragnhildur Haraldsdóttir.
Árgangur: 1986.
Fjölskylduhagir: Er í sambúð með tvö börn, sjö ára stelpu og átta ára strák og svo þarf nú Bjartur sem er af tegundinni Golden retriever að vera með í upptalningunni.
Búseta: Bý í Steinholti í Húnavatnshreppi.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Ólst upp sem barn á Móbergi í Hjaltastaðaþinghá, fluttist síðar með foreldrum til höfuðstaðs Norðurlands. Foreldrar mínir eru Haraldur Páll Guðmundsson og móðir Elín Hallveig Sveinbjörnsdóttir.
Starf / nám: Starfa hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, nánar tiltekið á Blönduósi. Er hestafræðingur og leiðbeinandi frá Háskólanum á Hólum, eins hef ég lokið BA gráðu í lögreglu- og löggæslufræðum við Háskólann á Akureyri. Upp á síðkastið hef ég verið að dunda mér í meistaranámi í lögfræði sem ég ætla að reyna að taka í einhverjum skömmtum. Svo, ef starf eða áhugamál má kalla, þá er ég í sveitarstjórn sem er ótrúlega lærdómsríkt og skemmtilegt en þó lúmskt tímafrekt.
Hvað er í deiglunni: Það er nú bara að halda áfram að vera til, sinna börnum, vinnu, áhugamálum og fleira.

Rabbið:

Hvernig nemandi varstu? Hef verið alls konar námsmaður, allt frá því vera mjög góður námsmaður í það að hafa takmarkaðan áhuga. Fór mikið eftir námsefninu.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Fermingadagurinn minn átti að vera á sama tíma og úrtaka fyrir Landsmót hestamanna þannig að það fór svo, þar sem ekki var hægt að vera á tveimur stöðum á sama tíma, að ég valdi frekar að keppa. Hins vegar stóð nú til að fermast seinna en því hefur aldrei verið komið í verk – vona að æðri mættir muni fyrirgefa mér það seinna.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég ætlaði alltaf að verða bóndi og hestakona.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Man nú ekki eftir neinu sérstöku leikfangi í æsku en undi mér mest innan um dýrin sem veittu manni mikinn félagsskap.

Besti ilmurinn? Sumir kalla þetta skítalykt en hjá mér er hestalykt besti ilmurinn.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Það var í réttum haustið 2019.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Það hefur verið eitthvað afar óvandað efni, Britney Spears eða eitthvað álíka gáfulegt.

Hvernig slakarðu á? Ef einhver annar ræður sjónvarpsefninu og setur leiðinlegan fótboltaleik á þá næ ég algjörri djúpslökun ... annars er það gott bað.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Almennt séð er ég ekki dugleg að horfa á sjónvarp en get þó dottið inn í eina og eina þáttaröð. Hef þó mest gaman að því að fylgjast með sjónvarpsstöðinni N4 sem hefur verið ötul við að kynna menn og málefni á Norðurlandi vestra.

Besta bíómyndin? Ég er mjög veik fyrir öllum myndum þar sem réttlætið sigrar ranglætið sem og myndir byggðar á sönnum atburðum. Mynd eins og Schindlers List kemur upp í hugann.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Allir þeir íþróttamenn sem halda toppstykkinu í lagi þrátt fyrir frægð og frama. Gylfi Sigurðsson er einstaklingur sem kemur mér þannig fyrir sjónir.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Myndi segja að þrífa og þvo þvott – aðrir á heimilinu segja að tuða og skammast ;o)

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Mín sterkasta hlið er ekki beint í eldhúsinu en á mínar stundir þar sem allir þykjast vera rosa ánægðir, þá er ég nú að gera eitthvað einfallt og gott.

Hættulegasta helgarnammið? Úff, það er svo margt, segi pass.

Hvernig er eggið best? Get ómögulega gert upp á milli linsoðins eggs og spælds eggs.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Æ, ég nenni nú ekki að fara telja það allt upp hér. Hinsvegar er það alltaf svo að það er ágætt að tileinka sér það að vanda sig í samskiptum við fólk og reyna að læra af mistökunum, held að það eigi við um flesta.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Það eru nokkrir eiginleikar sem koma upp í huga en til að nefna eitthvað er það hroki og fordómar sem mér finnst afar leiðinlegir eiginleikar í fari fólks. Svo finnst mér fólk sem hefur ekki húmor fyrir sjálfum sér og lítur stórt á sig afar óaðlaðandi.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Margur heldur mig sig. Svo er líka í uppáhaldi hátt hreykir heimskur sér.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Held að það hafi verið þegar við bjuggum einn vetur á Neskaupstað. Ætli það var ekki þegar ég var að mála hundinn minn með snyrtidótinu hennar mömmu, minnir að það hafi ekki vakið mikla lukku.

Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Ég held að ég myndi vilja vakna í líkama Kára Stefánsssonar og prófa það að vera hann í einn dag, yrði sjálfsagt mjög athyglisvert. Get ekki sagt hvað ég myndi gera sem Kári Stefánsson annað en það sem hann gerir svona dags daglega.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Á ekki uppáhalds rithöfund en þar sem ég er afar gömul sál kemur bókin Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson sterkt upp í hugann en hún segir frá fátæktinni og lífsbaráttunni á Íslandi – mjög áhrifarík og mögnuð bók.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Segi oft svo mikið, man ekki eftir neinu sérstöku.

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Maka og börnum af því að það eru dýrmætustu stundirnar.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Segi árið 930 þegar Alþingi Íslendinga var stofnað, held að það hafi verið afar áhugavert að vera uppi á Víkingatímanum, sjá og upplifa lífið og tilveruna á þeim tíma.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Þessi spurning var borin undir fjölskyldumeðlimi og vakti titillinn Margan hef ég skammað mesta kátínu og fékk flest stig. :o)

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, hvar myndirðu lenda? Mig hefur alltaf langað að fara til Perú og vera á slóðum Inka, ég held að slík ferð yrði ansi stórbrotin og skemmtileg.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Það er ekkert sérstakt sem kemur upp í hugan nema það að þegar maður skilur við þessa tilvist að maður sé sáttur við Guð og menn, sáttur við sjálfan sig og sitt lífshlaup.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir