Rabb-a-babb 189: Katrín Lilja
Nafn: Katrín Lilja Kolbeinsdóttir.
Árgangur: 1988, langbesti árgangurinn :D
Fjölskylduhagir: Gift Hlyn Hansen síðustu 6 árin. Það venst ágætlega.
Búseta: Bournemouth á suðurströnd Englands.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Foreldrar mínir eru þau Linda Gunnarsdóttir og Kolbeinn Konráðsson. Ég er Skagfirðingur í föðurættina og Reykvíkingur í móðurætt. Skagfirsku ræturnar rista djúpt í báðum mínum föðurættum, Frostastaðir annars vegar og Uppsalir hins vegar. Móðurmegin má sömuleiðis finna merkismenn og konur, langalangafi minn Eggert Benediktsson var til að mynda þingmaður Alþingis á sínum árum. Sjálf er ég alin upp í Skagafirði svo þar mun hjartað alltaf eiga sinn samastað.
Starf / nám: Ég lauk B.A námi í fjölmiðla- og boðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2017 og flutti í kjölfarið út til Englands til þess að næla mér í M.A gráðu frá Bournemouth University. Er á milli starfa eins og er, kórónufaraldurinn hefur svolítið sett atvinnulífið á hliðina hér eins og víða annars staðar.
Hvað er í deiglunni: Hitt og þetta, ég hef til dæmis nýtt þennan COVID tíma í að skrifa nokkur handrit að stuttmyndum. En þar sem ég er hvorki leikstjóri né framleiðandi (allavega ennþá), þá hef ég verið að senda þessi handrit á nýútskrifaða nemendur og aðra sem eru að byrja í bransanum. Þannig hjálpa ég þeim af stað og get bætt við kredit listann minn. Svo er reglulega hnýtt í mig að fara að skrifa þriðju bókina mína, og hafa hana þá helst á íslensku, það er aldrei að vita hvað gerist í þeim efnum.
Rabbið:
Hvernig nemandi varstu? Bara svona meðal held ég. Fram úr hófi dagdreymin í grunnskóla, eflaust ekkert í uppáhaldi hjá neinum þar, en svo rjátlaðist það af mér sem betur fer.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Rauði kjóllinn sem ég klæddist. Mig langaði aldrei í þennan hefðbundna hvíta kjól sem margir voru í, en hvers vegna rauður varð fyrir valinu, það hef ég aldrei skilið!
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Leikkona. Ég var sífellt skrifandi og semjandi sögur, sem varð til þess að afi minn, Konráð Gíslason heitinn, hélt því reglulega fram að ég yrði rithöfundur. Ég svaraði honum alltaf með því að ég ætlaði mér að verða leikkona og leika í öllu sem ég væri að skrifa um. Hef nú gefið út tvær bækur en leiklistaferillinn fór aldrei á flug svo ætli kallinn hafi ekki bara haft rétt fyrir sér.
Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Lítill bangsi sem hét Mýsla. Hún fylgdi mér í gegnum alla barnæskuna, gat aldrei sofið án hennar. Við vorum bestu vinkonur í heillangan tíma.
Besti ilmurinn? Það er jafntefli milli hangikjötsilmsins á aðfangadag og nýslegins gras. Hvort tveggja fyllir mig mikilli vellíðan.
Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Það er dálítið erfitt að bæði tíma- og staðsetja það almennilega. Hann fann mig á stefnumótasíðu árið 2012, og bauð mér í kjölfarið út að borða á Tapas barnum í Reykjavík, svo upphafið að okkar sambandi hófst 4.nóvember 2012 þegar hann sótti mig heim til vinkonu minnar í Vesturbænum. En eftir að hafa spjallað svolítið saman komumst við að því að við höfðum oft verið á sama stað á sama tíma, t.a.m. í sömu partýunum, svo okkur var greinilega ætlað að verða.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ég var óttaleg popp-gelgja, hlustaði mikið á Westlife, Backstreet Boys, Pink og Celine Dion. Hlustaði líka mikið á íslensku böndin, aðallega Á Móti Sól, Skítamóral, Írafár og Land & Syni.
Hvernig slakarðu á? Ég fer í heitt og gott bað og læt stressið líða úr mér, sest svo fyrir framan tölvuna, set klassíska tónlist á fóninn og byrja að skrifa, hvort sem það er handrit, smásögur eða bók. Það er ekkert sem róar mig jafn mikið og skrif.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ég horfi mjög lítið á sjónvarp ef ég á að segja eins og er. Eiginlega bara ekki neitt, fyrir utan fréttirnar. Ég er heldur ekki manneskjan til þess að segja þér hvað gerðist í nýjasta þættinum af hverju sem þú ert að horfa á, ég er nokkrum áratugum á eftir. Akkúrat núna er ég alveg dottin inn í The Dick Van Dyke Show frá 1960!
Besta bíómyndin? Stella í Orlofi. Af því að það er ekki ein setning í þeirri mynd sem er ekki fyndin.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Simone Biles, fimleikakonu. Frá því að alast upp á fósturheimilum, yfir í að vinna samanlagt 30 medalíur á bæði Ólympíuleikum og Heimsmeistaramótum, hvernig er hægt að toppa það?
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Ég vil ekki monta mig en ég er algjörlega topp eintak af bakara! Ég hef til dæmis masterað skúffuköku uppskriftina hennar mömmu, geri aðrir betur!
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Sjá ofangreint svar. Ég er skelfilegur kokkur, er samt að vinna mig í átt að minni fyrstu Michelin stjörnu einn grjónagraut í einu.
Hættulegasta helgarnammið? Súkkulaði. Hvaða nafni sem það kallast, ef ég kemst með puttana í súkkulaði halda mér engin bönd.
Hvernig er eggið best? Soðið. Egg eru samt frábær hvernig sem þau eru elduð.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Frestunaráráttan. Ég er skilgreiningin á “Á morgun segir sá lati.”
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Almennur dónaskapur og tilætlunarsemi. Fólk sem telur sig vera yfir aðra hafið og hikar ekki við að sýna það er fólk sem ég forðast að eiga samræður við.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Tvennt. 1) Komdu fram við náungann eins og þú vilt að hann komi fram við þig, og 2) Það er björt hlið á öllum svörtum aðstæðum. Mamma ól okkur systkinin upp á þessum tveimur mottóum, og eins mikið og ég var orðin þreytt á því á gelgjunni, þá lifi ég eftir þessu í dag.
Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég var þriggja og hálfs, og man sterkt eftir því að hafa verið að leika mér á stofugólfinu hjá ömmu Helgu og afa Konna í Furulundinum þegar síminn hringdi. Amma svaraði, á hinum enda línunnar var pabbi að tilkynna henni að litli bróðir minn væri fæddur. Ég man sömuleiðis vel eftir því þegar ég svo hitti litla gerpið í fyrsta sinn (djók, Fannar minn þú ert ágætur alveg :D).
Þú vaknar einn morgunn í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Klárlega Jennifer Aniston. Ég myndi líklega valhoppa um höllina sem hún býr í og fara svo og hitta eins mikið af frægu vinum hennar og ég kæmist yfir á einum degi.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Korkusaga – Við Urðarbrunn og Nornadómur eftir Vilborgu Davíðsdóttur. Las hana fyrst fyrir íslenskuverkefni í framhaldsskóla og hef lesið hana oftar en ég get talið síðan. Það er eitthvað ótrúlega magnað við þessa bók, mæli með henni!
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? „Af hverju samt?“ – Aðallega af því að það er svo mikið sturlað í þessari veröld sem að ég væri til í að fá skýringar á.
Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Bandaríska ljóðskáldið Maya Angelou, David Attenborough og leikkonan Hattie McDaniel. Af því að ég nýt þess að eiga samræður við fólk þar sem ég get bara hlustað og fræðst, og ég veit að þessir þrír einstaklingar gætu kennt mér heilan helling á einni kvöldstund.
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég myndi vilja upplifa ‘50s tímabilið. Af því ég held að það hafi verið skemmtilega skrýtinn tími.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Kærulaus á köflum.
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... heim í Skagafjörðinn. Hvergi annars staðar sem mér líður betur. Þrátt fyrir að ég þrífist vel hvar sem er, þá eigum við Glóðafeykirinn minn nóg eftir að tala um.
Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Í heimsókn fjölskyldunnar til Þýskalands árið 2017 röltum við yfir stærðarinnar brú og pabba varð á orði; “Er þetta Rín? Ef svo er, þá óð ég þessa á í svissnesku ölpunum fyrir 32 árum! Þetta var svo handahófskennt að ég setti mér það markmið að ég skyldi gera eitthvað álíka, bara til að geta sagt svona handahófskennda setningu í ellinni!
- Heimsækja ættbálk í Afríku og sitja með þeim við varðeld, að syngja og dansa.
- Heimsækja búddaklaustur í Nepal.
- Ferðast um með sleðahundum í Finnlandi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.