Rabb-a-babb 182: Ingileif skólameistari
Nafn: Ingileif Oddsdóttir.
Árgangur: 1964.
Fjölskylduhagir: Gift Sævari Steingrímssyni. Tveir synir, Óskar Þorgils og Oddur. Einn ömmu og afastrákur sem heitir Sævar.
Búseta: Bý á Sauðárkróki.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Ég er fædd og uppalin á Akranesi. Faðir minn er Oddur Gíslason, frá Hliði á Akranesi. Móðir mín hét Björnfríður Sigríður Björnsdóttir, hún var kennd við Sigurvelli á Akranesi.
Starf: Skólameistari Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.
Hvað er í deiglunni: Að njóta lífsins og lifa í núinu.
Rabbið:
Hvernig nemandi varstu? Ég var sennilega fyrst og fremst samviskusamur nemandi. Alltaf með góða mætingu og gekk þar af leiðandi vel í skóla.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Öll skartgripaskrínin sem ég fékk í fermingargjöf. Held að þau hafi verið 10.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Kennari, það er ekki spurning! Man að ég “stofnaði” skóla í kyndiklefanum heima. Reyndi að kenna litlu krökkunum í hverfinu að lesa og skrifa
Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Bangsi sem ég elskaði út af lífinu.
Besti ilmurinn? Af góðu kaffi.
Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Á balli með Síðan skein sól í Miðgarði, þann 28. janúar 1994.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Þegar ég var 17 ára var diskó tímabilinu rétt að ljúka og ég farin að hlusta á rokkhljómsveitir eins og Dr. Hook, Eagles, Rolling Stones o.s.frv..
Hvernig slakarðu á? Besta slökunaraðferðin er að mínu mati stangveiði. En það er líka slakandi að fara í golf eða lesa góða bók.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Breskum og norrænum sakamálaþáttum.
Besta bíómyndin? Bridget Jones’s Diary. Af því að ég hef gaman af aulahúmor.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Tiger Woods.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Mitt hlutverk er að sjá um allt sem heitir græjur.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Sennilega fiskréttir.
Hættulegasta helgarnammið? Lakkrís.
Hvernig er eggið best? „Sunny-side up.“
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Óþolinmæði.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Læt ekki annað fólk fara í taugarnar á mér, ég hef nóg með sjálfa mig.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Þolinmæði þrautir vinnur allar.
Hver er elsta minningin sem þú átt? Þegar ég fór í heimsókn á sjúkrahúsið að sjá litla bróðir í fyrsta sinn. Þá var ég þriggja og hálfs árs gömul.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Ég á ekki uppáhaldsrithöfund eða bók. Ég hef mest gaman að því að lesa íslenskar skáldsögur. Við eigum svo marga góða rithöfunda.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Halló!
Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Æskuvinkonum mínum. Það er allt of langt síðan við hittumst.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til Víetnam.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.