Rabb-a-babb 175: Séra Gísli

Nafn: Gísli Gunnarsson.
Árgangur: 1957.
Fjölskylduhagir: Kvæntur Þuríði Kr. Þorbergsdóttur frá Brúnahíð í Aðaldal. Við eigum fjögur börn, sem öll eru farin að heiman, - mislangt þó. Synirnir Gunnar og Þorbergur eiga heima í Skagafirðinum, en dæturnar Margrét og Aldís Rut í Reykjavík. Barnabörnin eru sjö og það áttunda væntanlegt í maí.
Búseta: Glaumbær 1.
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Sonur sr. Gunnars Gíslasonar og Ragnheiðar Margrétar Ólafsdóttur. Pabbi var alinn upp í Hvammi í Laxárdal, en mamma var úr Reykjavík. Var heima í Glaumbæ til níu ára aldurs, en eftir það í Reykjavík á veturna, í Laugarnesinu. Pabbi var þá á þingi og því áttum við einnig heimili í Reykjavík.
Starf / nám: Byrjaði grunnskólann aðeins í Varmahlíð hjá Halldóri á Seylu, annars í Reykjavík, í Laugarlækjaskóla svo Hagaskóla. Stúdent frá MR og Guðfræðingur frá HÍ. Var eitt misseri í Háskólanum í Edinborg m.a. í sjúkrahúsþjónustu og svo var ég veturinn 2007-2008 í Árósum og var þá aðallega í listasögu. Prestur í Glaumbæ frá 1982, en hef auk þess þjónað fleiri sóknum og prestaköllum í Skagafirði, m.a. í Fljótum í rúman áratug og á Sauðárkróki. 
Hvað er í deiglunni: Helsta verkefnið framundan er að halda áfram með húsbyggingu, sem á að vera tilbúin á næstu árum.

Hvernig nemandi varstu?  Var orðinn ágætur í háskólanum, en ætli ég hafi ekki verið í meðallagi lengst af. Hefði mátt sýna meiri áhuga á ýmsum námsgreinum eftir á að hyggja, ekki síst tungumálunum.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Einhvern veginn situr það í minningunni þegar stjúpamma mín, sem búsett var á Seyðisfirði, faðmaði vin minn, sem ég hafði boðið í veisluna, kyssti hann og óskaði honum innilega til hamingju með ferminguna. Við vorum reyndar ekki ósvipaðir og áttum eins fermingarföt og langt var frá því að hún hafði séð mig og því mistökin vel skiljanleg. Þessi vinur minn var Gunnar sem nú er bóndi á Akri í A-Hún.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Lengi stóð til að verða dýralæknir. Fannst Steinn dýralæknir alltaf flottur.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Segi nú ekki horn og leggir, en náði því að stunda svoleiðis búskap. Smíðadót var vinsælt og svo var ég á tímabili mikið í módelum og var nokkuð vel að mér varðandi flugvélar og skipaflotann í seinni heimstyrjöldinni.

Besti ilmurinn? Af nýslegnu grasi

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Það var á Kleppi 1980. Það sumar vann ég þar. Lengi vel lentum við ekki saman á vöktum, en ég hafði heyrt talað fallega um hana. Eitt sinn þegar morgunvaktin kom í vinnu beið okkar glæsileg terta sem næturvaktin hafði bakað handa okkur og allir prísuðu Þuríði fyrir það. Hún væri sannur engill. Þegar læknirinn, sem taldi sig fremstan í hópnum, smakkaði fyrstu sneiðina brást hann ókvæða við og með miklum látum skyrpti hann út úr sér bitanum. Kom í ljós við nánari skoðun að kakan var úr kaffikorgi (sem jafnan var nóg til af á Kleppi) og tannkremi. Við þetta morgunverðarborð vissi ég að ég var búinn að finna konuna mína, áður en ég hafði séð hana. 

Hvernig slakarðu á? Í lazyboy-num (segir Þuríður).

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Wallander.

Besta bíómyndin? Nefni annars vegar Godfather myndirnar og hins vegar You´ve got Mail. Afar ólíkar og höfða til mismunandi tilfinninga. (Þorði varla að nefna seinni myndina af spéhræðslu) 

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Jóni á Selinu og Kalla Lúðvíks, en við æfum saman íþróttir í Varmahlíð, tvisvar í viku.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili?  Skipta um perur.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Opna sardínudós og telja sardínurnar í dósinni.

Hvernig er eggið best?  Það er best þegar það er á milli þess að vera linsoðið og harðsoðið.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?  Að gera það á morgun (eða jafnvel seinna) sem ég get gert í dag.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?  Snobb og hræsni.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  „Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum.“

Hver er elsta minningin sem þú átt?  Ætli það sé ekki Friðberg vinnumaður að rífast við fréttaþulinn í útvarpinu.

Þú vaknar einn morgunn í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera?  Ef ég vaknaði upp sem heilbrigðisráðherra þá mundi ég styrkja sárþjáða til að fara í Klínikina í mjaðmaliðskipti í stað þess að senda þá á biðlista eða til útlanda með fylgdarmanni og tvöföldum kostnaði fyrir ríkissjóð.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur?  Byrjar á B.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Jæja.


Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég færi til Ítalíu  á 16. öld þegar meistarararnir Leonardo og Michelangelo og fleiri voru að skapa þau listaverk sem dáðst er að í dag, t.d. í Róm. 

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Í túninu heima.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...
Ég kunni vel við mig á Taílandi

Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina:  Byggja hús, nota bátinn og ganga á Mælifellshnjúk.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir