Rabb-a-babb 171: Evelyn Ýr
Nafn: Evelyn Ýr.
Árgangur: 1973.
Fjölskylduhagir: Gift Sveini Kunningja á Lýtingsstöðum, við eigum saman eðaleintakið hann Júlíus Guðna.
Búseta: Bý á Lýtingsstöðum í Lýtingsstaðarhreppi hinum forna.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Ég er fædd og uppalin í Austur Þýskalandi og sjálfkjörinn Lýtingur síðan 1995. Ég er eina dóttir foreldra minna og á tvo bræður sitthvoru megin við mig. Mamma vann við bókhald í keramikverksmiðju áður en hún stofnaði ferðaskrifstofu um leið og múrinn féll. Pabbi vann sem verkfræðingur í kjarnorkustöð áður en hann fór að vinna á ferðaskrifstofunni hennar mömmu.
Starf / nám: Ferðaþjónustubóndi og bóndakona, húsmóðir með mastersgráðu í menningarfræði, leiðsögumaður og stundakennari í ferðamálum í Háskólanum á Hólum
Hvað er í deiglunni: Það er kominn vetur og ég fer í hvíld – eða þannig.
Hvernig nemandi varstu? Sá besti.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Játningin hjá biskupnum sem fermdi mig og hina krakkana. Ég er sko kaþólsk.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Kokkur, snyrtifræðingur, sjóntækjafræðingur, leikskólakennari og rithöfundur. Ég hef örugglega gleymt einhverju.
Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Rugguhesturinn minn.
Besti ilmurinn? Hross, hey og nýbakað brauð.
Hver var uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst u.þ.b. 17 ára? Sinéad O´Connor, Billy Idol, Pet Shop Boys, Depeche Mode, A-ha og ýmislegt sem var í tísku í þýskum tónlistaheim.
Hvernig slakarðu á? Með því að syngja, fara í reiðtúr eða taka myndir. Svo er gott að setjast niður með glas af rauðvíni, kveikja á kertum og lesa.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Landinn og glæpamyndir.
Besta bíómyndin? Þessu er erfitt að svara. Ég hef farið u.þ.b. tíu sinnum í bió síðan ég flutti til Íslands. Myndir sem ég man eftir fyrir löngu síðan eru hryllingsmyndin Pet Cemetery eftir Steven King en sennilega var Go Trabi Go í uppáhaldi, sérlega skemmtileg mynd um austurþýska fjölskyldu sem ferðaðist til Ítaliu á Trabantinum sínum.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili?Að syngja í sturtu.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Folaldagúllas.
Hvernig er eggið best? Nýtt og mjúkt ef soðið, gjarnan með sinnepsósu. Annars spælt.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Óþolinmæði.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Seinlæti.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Hver er elsta minningin sem þú átt? Komin á hestbak á dráttarhesti hjá afa. Ég var örugglega ekki eldri en tveggja ára.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Ég á margar bækur en bindi mig ekki við neinn ákveðinn rithöfund. Finnst margt vert að lesa, allt á milli Grágásar og nýjastu bókarinnar hennar Yrsu.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Í alvöru!?
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég hugsa að ég færi aftur á landnámsöld að fylgjast með Lýtingi setjast að á Lýtingsstöðum. Það væri áhugavert að sjá hvernig allt leitt út á þessum tíma.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Þessi spurning veldur mér heilabrotum en ég mun komast að því þegar ég gef út ævisögunna mína.
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til Mongólíu í hestaferð en með stop over í Þýskalandi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.