Rabb-a-babb 169: Höskuldur
Nafn: Höskuldur Birkir Erlingsson.
Árgangur:1965.
Fjölskylduhagir: Kvæntur góðri konu, Elínu Rósu Bjarnadóttur, og eigum við samtals sjö börn og sex barnabörn.
Búseta: Blönduós (nafli alheimsins).
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Foreldrar mínir eru Erling Birkir Ottósson frá Borðeyri í Hrútafirði og Gunnhildur Höskuldsdóttir frá Drangsnesi við Steingrímsfjörð. Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík en eyddi stórum hluta æsku minnar á Drangnesi hjá móður afa mínum og ömmu. Góðir tímar sem að ég hugsa til með mikilli ánægju. Það var gott að vera á Drangsnesi og þar gerðust ævintýrin.
Starf / nám: Ég er lærður símsmiður frá Póst,- og símaskólanum og starfaði þar í 6 ár þar til að ég byrjaði í lögreglunni 1986, vikuna eftir leiðtogafundinn. Ég starfaði í lögreglunni í Reykjavík í 6 ár, á Hólmavík í 9 ár og er núna búinn að vera á Blönduósi í 17 ára og er aðalvarðstjóri þar.
Hvað er í deiglunni: Veiði og aftur veiði. Ég veiði á stöng eins lengi og hægt er fram eftir hausti, lax og silung. Svo taka við gæsa, og rjúpnaveiðar.
Hvernig nemandi varstu? Ég myndi segja að ég hafi verið afskaplega þægilegur nemandi þ.e.a.s. fyrir kennarana, það var ekki mikið vesen á mér
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Ég fermdist í stórum hóp unglinga í Bústaðakirkju og það er minnisstætt þegar félagi minn, sem að sat fyrir framan mig, missti sálmabókina á gólfið, beygði sig fram og við það rifnaði kirtilinn á bakinu með háu hljóði og allir fóru að hlægja.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Það voru aldrei neinir sérstakir draumar um það. Jú, einhvern tima ætlaði ég að verða flugmaður
Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Actionman í skriðdreka.
Besti ilmurinn? Ilmurinn af jólum ! Og þá meina ég lyktin af nýsoðna hangikjötinu eða hamborgarhryggnum.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Eitís... alæta á allt. Man þó eftir þvi þegar ég var að renna niður Laugaveginn á Græna Golfinum mínum með Duran Duran í botni og alla glugga opna.
Hvernig slakarðu á?Ég verð að segja að ég slaka best á við stangveiðar. Standa út í góðri á og kasta flugu fyrir lónbúann, hvað er betra. Maður tæmir algjörlega hugann og ef það er eitthvað sem að ég hugsa þá er það hvaða fluga eigi að fara næst undir !
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Hmm, eins ótrúlegt og það nú er þá eru það ekki lögregluþættirnir, heldur finnst mér alveg ferlega gaman að horfa á Masterchef þættina með Gordon Ramsey. Og svo er ég farinn að hlakka mikið til að sjá Sporðakasta þættina í vetur sem að hann Eggert Skúlason vinur minn er búinn að vera að mynda í sumar.
Besta bíómyndin? Þær eru eiginlega tvær. Mér finnst Shawshank Redemption algjör snilld og ég horfi reglulega á hana. Hún segir eiginlega ekkert um sekt eða sakleysi heldur leyfir áhorfandanum að mynda sér skoðun um það. Svo er það Sixth sense. Ég sagði bara vá við sjálfan mig þegar ég áttaði mig á uppbyggingu myndarinnar. Þvílík snilld !
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Þegar ég var krakki þá leit ég upp til Strandamannsins sterka Hreins Halldórssonar og var með mynd af honum á vegg í herberginu mínu. En verandi mikill Manchester United aðdáandi þá var Bryan Robson mikill uppáhaldsknattspyrnumaður hjá mér.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Þú verður eiginlega að spyrja Elínu að því. Ég dreg allavega björg í bú ! Lax, silung, gæsir, endur og rjúpur !
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ha ha ha ha, það er sko Hakk með loki! Steikt hakk, sveppir og laukur á pönnu og sett í eldfast mót. Kartöflumús ofan á og svo gratínostur yfir það. Sett í ofan í 20 mín. Geggjað gott !!
Hættulegasta helgarnammið? Obbobobbbb, mér fannst og finnst lakkrís góður en ... má ekki lengur. Þannig að mér finnst poppkorn annað slagið vera mjög gott.
Hvernig er eggið best? Svona miðlungsharðsoðið á rúgbraug með reyktum laxi sem að ég veiddi sjálfur.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Get verið ferlega gleyminn, þannig að ég er farinn að punkta hjá mér það sem ég þarf að gera ! Ef ég man eftir því að punkta hjá mér...
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Að koma of seint eitthvert. Ég reyni að vera alltaf á tíma hvert það sem ég þarf að fara eða gera. Leiðist að þurfa að bíða eftir öðrum.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Ég bíð í „ofnæmi“.
Hver er elsta minningin sem þú átt? Mig rámar í það að hafa verið í hálfgerðu beisli og barnapían að dröslast með mig haldandi í tauminn.
Þú vaknar einn morgunn í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Ég væri til í að vera sir Alex Ferguson og ég myndi nota daginn til að komast að því hvað væri eiginlega í gangi innanhúss á Old Trafford.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Mín uppáhaldsbók fyrr eða síðar er bókin Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur. Ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma lesið bók sem var jafn myndræn. Ég missti mig alveg langt fram á nótt við lestur.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Já sæll!!!
Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Sir Alex Ferguson, Sir Bobby Charlton og Sir MattBusby. Ég myndi drekka í mig allan þeirra fróðleik um knattspyrnu.
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég færi aftur til áranna á Drangsnesi. Mig langar til að vera aftur orðinn polli á bryggjunni algjörlega áhyggjulaus að dorga fyrir þyrskling og fá kalda mjólk og köku hjá ömmu fyrir háttinn.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Hvenær kemur sá stóri?
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til Afríku. Mig langar að sjá villt dýr í sínu rétta umhverfi og taka mikið af myndum.
Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Mig langar að veiða í Alta ánni í Noregi þar sem risa stóru laxarnir synda um. Ferðast meira, það er aldrei nóg ferðast. Sjá barnabörnin vaxa úr grasi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.