Rabb-a-babb 167: Ólafur Bjarni

Ólafur Bjarni í fjörunni. AÐSEND MYND
Ólafur Bjarni í fjörunni. AÐSEND MYND

Nafn:  Ólafur Bjarni Haraldsson.
Árgangur: 1986.
Fjölskylduhagir: Ókvæntur og barnlaus, en allt í vinnslu.
Búseta: Varmahlíð/Hofsós.
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Foreldrar mínir eru Ragnheiður og Haraldur í Brautarholti, sem er sveitabær stutt frá Varmahlíð, en þar er ég einmitt uppalinn.
Starf / nám: Ég er stýrimaður á Málmey SK 1, lærði Húsasmíði frá FNV, og svo er ég sveitarstjórnar fulltrúi í sveitarfélaginu Skagafjörður.
Hvað er í deiglunni:  Klára daginn í dag, svo tekur eitthvað við á morgun, trúlega mjög spennandi.

Hvernig nemandi varstu?  Hvað hegðun og atferli varðar var ég réttu megin við línuna, en kannski alveg við hana, allavega ekki oft hjá skólastjóranum. Annars gekk mér vel að læra, enda hafði ég mjög góða kennara

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum?  Svona fyrir utan ferminguna sjálfa, þá er það trúlega hvað mér fannst marsípan kakan vond. Lenti í bölvuðu brasi með að farga henni þannig enginn sæi til.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?  Prestur og smiður og síðar meir biskup, svona þegar ég yrði mjög gamall.

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki?  Bangsinn Bubbi þegar ég var mjög lítill. Svo var það Lego þegar ég varð aðeins eldri, svo átti ég Stiga sleða sem var einnig í miklu uppáhaldi yfir vetrartímann. 

Besti ilmurinn?Af nýslegnu grasi, það er eitthvað við það

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Úffff.. eigum við ekki bara að segja Papana, eða eitthvað álíka.. riggarobb var diskur sem var mikið spilaður að næturlagi um helgar.

Hvernig slakarðu á? Það er helst upp í koju út á sjó í hæfilega miklum veltingi, ótrúlegt hvað það getur tæmt hugann 

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ég horfi yfirleitt bara á sjónvarps seríur á Netflix ef ég horfi á annað borð á sjónvarp.

Besta bíómyndin? Til að segja eitthvað, Captain Phillips, sannsöguleg um alvöru hetju.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Bryndís Rut Haraldsdóttir og Óskar Smári Haraldsson.. get ekki gert upp á milli

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili?  Ég sé um að kaupa kattamatinn, og það er alltaf nóg til. 

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Að vaska upp. Í því er ég mjög góður. Hvað eldamennsku varðar þá er ég mjög lélegur á því sviði. Stressast allur upp og hef enga yfirsýn yfir hvað sé í gangi.. 

Hættulegasta helgarnammið? Einusinni var það Thule, núna er það súkkulaði

Hvernig er eggið best? Medium boiled ef það er soðið, eða spælt beggja vegna, en bara örlítið á seinni hliðinni, er mjög vandlátur á egg. 

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?  Hvað ég get verið utan við mig alltaf. Verður til þess að ég týni öllum hlutum, lyklum, símum, veski, vegabréfi. skildi vegabréfið mitt einu sinni eftir á bensínstöð á leiðinni í Leifsstöð. 

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Ég reyni nú að umbera alla og á yfirleitt auðvelt með það. Það er helst ef fólk kemur ekki hreint fram við mig sem það virkilega reynir á taugarnar.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? „Success is the ability to go from one failure to another with no loss of enthusiasm“ á íslensku; „Árangur er að gera hver mistökin á fætur öðrum án þess að missa eldmóðinn.“ - Sir Winston Churchill

Hver er elsta minningin sem þú átt?  Úfff.. veit ekki með hvort þetta sé sú elsta, en ég man mjög vel eftir því þegar ég var u.þ.b. fimm ára og fann fjögurra blaða smára og óskaði mér lítils systkins. Kannski var óskin ekki nógu skýr, en ég fékk þrjú. Þetta var erfitt um tíma en ég er glaður í dag með þessa ósk.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera?  Ég held að ég myndi bara alls ekki vilja vera frægur, hef að minnsta kosti ekki þroska í það enn þá.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Ég les yfirleitt Arnaldar og Yrsu bækurnar um jólin, er orðið eins konar hefð hjá mér.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Snilld. Ég nota það orð of mikið

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Ef það ætti að vera draumakvöldverður þá held ég það væri bara pláss fyrir mig og eina í viðbót

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Til ársins 1986, væri til í að lifa síðustu 32 ár aftur, og ég myndi gera allt alveg eins.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Landið og miðin.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... trúlega til Póllands, mér líkar vel við Pólverja.

Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina:  Mig langar að stuðla að fjölgun Skagfirðinga (bæði beint og óbeint), byggja mér mitt eigið drauma heimili, og lifa áður en ég dey.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir