Rabb-a-babb 164: Friðrik Már
Nafn: Friðrik Már Sigurðsson.
Árgangur: 1980.
Fjölskylduhagir: Kvæntur Sonju Líndal Þórisdóttur. Við eigum tvö börn, Jakob sjö ára og Margréti Þóru eins árs.
Búseta: Lækjamót í Víðidal, Húnaþingi vestra.
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Sonur Sigurðar Leifssonar og Margrétar Árnýjar Sigursteinsdóttur. Fæddur í Kaupmannahöfn, uppalinn í Reykjavík. Svo hef ég mikil tengsl í Skagafjörð þaðan sem pabbi er ættaður. Foreldrar mínir eiga jörðina Hjaltastaðahvamm í Akrahreppi og þar dvelur fjöskyldan oft.
Starf / nám: Sjálfstætt starfandi. Vinn við allt sem viðkemur hestum, tamningu, þjálfun, kennslu, járningum, dómum o.s.frv. Ég er með Diploma í tamningum og Diploma í þjálfun og reiðkennslu frá Háskólanum á Hólum. B.Sc. í búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Svo stunda ég nám í klassískum söng við Tónlistarskóla Húnaþings vestra.
Hvað er í deiglunni: Taka sæti í sveitarstjórn og byggðaráði í Húnaþingi vestra. Næstu fjögur ár verða bæði spennandi og krefjandi. Ég hlakka mikið til.
Hvernig nemandi varstu?Ég var örugglega á iði en átti frekar auðvelt með að læra. Bara ekki lengi í einu á sama stað.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum?Hvað mér þótti slaufan sem ég var með alveg ferlega ljót.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Bóndi og hestamaður.
Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki?Ég lék mér mikið af Legói. Svo átti ég bú sem mér þótti mjög gaman að leika mér í.
Besti ilmurinn?Lyktin af blómstrandi blóðbergi.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið?Ég tengi þetta tímabil við sveitaböll, lagið Song2 með Blur og hljómsveitina Quarashi.
Hvernig slakarðu á?Drekka kaffi og lesa Bændablaðið.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?Ætli það séu ekki þættir tengdir náttúru og sögu.
Besta bíómyndin?Sódóma Reykjavík. Hún er klassík.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á?Lionel Messi.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Grilla kjöt og járna hesta.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Andabringur í appelsínusósu.
Hættulegasta helgarnammið? Doritos með ostasósu og bræddum osti.
Hvernig er eggið best? Eggjahræra með beikoni og pylsum.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ekkert. Ég er eins og èg er og hvernig á ég að vera eitthvað annað.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Fólk sem missir stjórn á skapi sínu.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Nú er bara að duga eða, já nú er bara að standa sig (úr myndinni Magnús).
Hver er elsta minningin sem þú átt? Sennilega þegar ég kúkaði í buxurnar á Þingvöllum þegar ég var tveggja ára. Mér fannst það mjög fyndið en öðrum nærstöddum ekki.
Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Ég hef engan áhuga á því að vera einhver annar.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Stóðhestabókin.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Kemur í ljós.
Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Myndi bjóða Trump, Pútín og Kim Jong Un, en hef ekki hugmynd af hverju. Ætli ég myndi ekki grilla fyrir þá folaldakjöt.
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Það væri gaman að fara aftur til áranna í kringum landnám Íslands og sjá hvernig landið leit út.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Aftur á bak.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.