Rabb-a-babb 154: Halldór á Molastöðum

Nafn: Halldór Gunnar Hálfdansson.
Árgangur: 1974.
Fjölskylduhagir: Kvæntur sjö barna faðir, á von á því áttunda í desember.
Búseta: Molastaðir, Fljótum.
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Móðir mín heitir Edda Þorvarðardóttir , starfaði sem læknaritari, faðir Hálfdan Henrýsson stýrimaður og skipaskoðunarmaður. Forfeður voru líklega galdramenn og snærisþjófar á Hornströndum. Fæddur í Reykjavík, bjó í Breiðholti,dvaldi lengst hjá ömmu minni í 101.
Starf / nám: Bóndi og skólabílstjóri, búfræðingur frá Hvanneyri og næstum því kennari frá gamla Kennaraháskólanum (átti eina önn eftir).
Hvað er í deiglunni: Að halda haus.

Hvernig nemandi varstu? Áhugalaus og óþekkur. Þyrfti að fá einhvers konar greiningu sem fyrst.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? 3. apríl 1988 var allt á kafi í snjó í Reykjavík.Annars fannst mér áberandi hvað við fermingardrengirnir vorum litlir og óþroskaðir miðað við fermingarstúlkurnar.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Lögfræðingur.

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Fjarstýrður Toyota Hi-Lux.

Besti ilmurinn? Rakarinn minn á Siglufirð, Hrólfur Baldursson, selur karlmannlega rakspíra sem allir ilma vel.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ég hlustaði mikið á The Doors.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí?  Love Me Tender, Elvis style, annars eitthvað lag frá Las Vegas árum kóngsins.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ég horfi nánast eingöngu á streymisveitur og er nú að horfa á aðra þáttaröð Stranger Things og Twin Peaks.

Besta bíómyndin? Apocalypse now eftir Coppola, margar frægar setningar þar.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Æ ,eru þeir ekki allir að gera sitt bezta ?

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Ég er húsbóndi á mínu heimili og ræð hvenær ég skúra.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ég raða mjög vandlega í uppþvottavélina.

Hættulegasta helgarnammið? Kaldur IPA bjór.

Hvernig er eggið best? Án salmonellu.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ég fæ góðar hugmyndir en kem engu í verk.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Nöldur og tuð.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  „Sjitt maður, sólin er farin“ – þetta sagði frændi minn þegar hann sofnaði í berjamó í Stíflurétt og vaknaði þegar farið var að dimma.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Ferðalög um Vestfirði með fjölskyldunni og heimiliskettinum í Land Rover '68. Enginn í beltum.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Kolbeinn kafteinn í Tinna bókunum. Breyskleiki hans höfðar til mín.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera (og af hverju)? Mér finnst nógu flókið að vera ég.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur (og af hverju)? Það er enginn sérstök bók í uppáhaldi, ég hélt dálítið upp á Hallgrím Helgason þegar hann var fyndinn.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? „Kíki á þetta á morgun"

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Þetta er allt bezta fólk.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég færi um Fljótin, Siglufjörð og Héðinsfjörð árið 1936. Ég held nefnilega að ég sé uppi á röngum tíma.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Hvert fór tíminn ?

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til New York, New York, höfuðborgar heimsins.

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Ég þarf bara einn hlut og það er konan mín.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Eignast fisflugvél, ferðast um með konunni minni Maríu og hitta skrýtið fólk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir