Rabb-a-babb 142: Gæi Bjöggu
Nafn: Jón Garðar Jónssson.
Árgangur: 70 árgangurinn, ég hafði ekkert val.
Fjölskylduhagir: Gitur Helenu Björk Rúnarsdóttir og eigum fimm stráka.
Búseta: Hafnarfjörður.
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Faðir er Jón Snædal Jónsson og móðir Steinunn Björk Garðarsdóttir. Ég er fæddur og uppalinn á draumastaðnum, Sauðárkróki.
Starf / nám: Ekkert fast í hendi eins og er, er að moða úr nokkrum störfum, skýrist á nýju ári (sendi nýja tilkynningu inn þá). / Byggingarfræðingur.
Hvað er í deiglunni: Að stækka við okkur, jafnvel að hugsa okkur til hreyfings á landsbyggðina.
Hvernig nemandi varstu? Í Gagnfærðiskóla var ég var mjög erfiður nemandi og vildi fara mína eigin leiðir, átti erfitt með að hlusta og læra. En í FSU lærði ég að hlusta og læra og þá byrjaði áhuginn á námi og útskrifaðist ég þaðan sem iðnemi með stæl.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Þegar ég og Helgi Einarsson vorum að steppa í takt við tónlistina, alveg að fíla hana og vorum að springa úr hlátri. Við smituðum aðeins spennuhlátrinum um og voru nokkrir fleiri farnir að flissa í miðri athöfn.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Atvinnumaður í knattspyrnu hjá Liverpool.
Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Það var pottþétt boltinn minn, sem ég einhverra hluta vegna kallaði Palla.
Besti ilmurinn? Armani Code.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið (hver var uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst u.þ.b. 17 ára)? Billy Idol var alltaf minn kappi, en ég man mest og best eftir þessu lagi með The Hooters, Johnny B, og það var rosalega mikið spilað.
Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Ég er því miður búinn að taka kareókí og skemma margar sálir, hef meðal annars sungið Wild Thing með Troggs og Stand By Me með Ben E King og svo auðvitað nokkur Elvis lög. En ég hef lagt Kareókí alveg á hilluna og leikið mér með gítar og sungið inni í herbergi með börnunum sem halda að pabbi sé svaðaleg poppstjarna.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Liverpool vs Man City á gamlárskvöld. En annars horfi ég mjög sjaldan á sjónvarp.
Besta bíómyndin? Bruce Almighty, Kitlaði svo hláturtaugarnar að vörðurinn í bíóinu bað mig að hafa mig hægan og þá hló ég enn meira, fannst það svo fyndið að hann kæmi að biðja mig um að hafa mig hægan.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Þeir eru margir flottir, En ég heillast rosalega af eiginleikum Lionel Messí. Er Gary Linker hættur?
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Eldamennskan er mitt aðal.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ég á þau mörg en hamborgarhryggur, úrbeinaður af mér og meðhöndlaður með minni leyniaðferð, er langflottast.
Hættulegasta helgarnammið? Þegar konan og börnin “teyma” mig í Hagkaup í nammiferð, fyrst horfi ég á þau týna í pokana og svo horfi ég á allar súkkulaðikúlurnar og vakna heima með 1kg! En annars er það Pik Nik.
Hvernig er eggið best? Soðið, kælt og niðursneitt á brauð með miklu smjöri og ískaldri mjólk.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Gleymska.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Sjálfselska.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Vertu þú sjálfur, allt til enda, alla leið.
Hver er elsta minningin sem þú átt? Þegar það var grettukeppni heima á Freyjugötu 32 milli okkar systkinana og ég vann aldrei, Því eldri systkinin dæmdu alltaf svo ég sótti mömmu og ekkert breyttist í dómgæslunni svo ég sótti pabba og þá loksins vann ég.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Sid í Ice Age (Ísöldinni).
Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Rowan Atkinson, því hann kemur fólki alltaf til að brosa og hlæja í þeim hlutverkum sem hann leikur í.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur (og af hverju)? Á enga uppáhalds bók, hef aldrei verið mikill bókamaður, En hef þó verið hrifnastur af tómu bankabókinni minni þar sem höfundur er Arionbanki.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Festist aldrei í einum frasa, er svo uppfinningasamur í þeim, En nýjasti er: Það er aldrei of mikið af bumbusteik. Það er svona hátíðarþeminn.
Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Bill Gates.
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég myndi fara til ársins 1986 og breyta úrslitunum þegar við töpuðum fyrir KR 3:2 í úrslitaleik í 3 flokki á KR malarvellinum!.Mesta svekk á ferlinum. Eftir að hafa lent undir 1:0 og komst svo í 2:1 og tapa svo 3:2 þegar 20 min voru eftir!
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Tíminn tekur, Tíminn gefur.
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu.. ...beint til Berlín – elska söguna og menninguna þar.
Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Flugvél til að komast til baka, mat til að lifa og sólvörn til að brenna ekki.
Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Hjálpa börnunum að ná sínum draumum og markmiðum, fara til sólarlanda, og kaupa nýjan rauðan Skoda Superb handa konunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.