Rabb-a-babb 140: Sveinn Sverris

Nafn: Sveinn Sverrisson.
Árgangur: 1969.
Fjölskylduhagir: Giftur Helgu Harðardóttur og eigum dæturnar Vigdísi og Elínu.
Búseta: Sauðárkrókur.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Sonur Sverris Sveinssonar og Auðar Björnsdóttur sem eru búsett á Siglufirði þar sem ég ólst upp á milli fjöru og fjalla.
Starf / nám: Sjúkraþjálfari og vinn á HSN – Sauðárkróki.
Hvað er í deiglunni: Hefðbundin haustverk sem miðast m.a. við að veiða eitthvað í kistuna fyrir veturinn.

Hvernig nemandi varstu? Tel mig hafa verið ágætan nemanda en trúlega þurftákveðna leiðsögn, því ég fékk aldrei að velja mér sæti í skólastofunni.  Við vorum alltaf tveir félagarnir sem voru látnir sitja beint á móti kennaranum, þ.e. fyrir framan kennaraborðið.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum?
Fermingarmyndatakanhjá Páli ljósmyndara frá Akureyri, hann vildi hafa þetta almennilega mynd og tók því góðan tíma í að stilla okkur upp fyrir myndatökuna.  Er við höfðum staðið þarna ansi lengi þá hleypur hann aftur fyrir hópinn og grípur eina bekkjarsystir mína sem var að líða útaf.  Fermingarmyndina á ég enn og er hún óaðfinnanlega vel uppstillt, fermingarbörnin brún og sælleg nema ein stúlkan með yfirlýst andlit.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? 
Var aldrei með eitthvað eitt á heilanum, því hver dagur var ævintýri út af fyrir sig á Sigló.

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Snjórinn gerði það að verkum að skíðin áttu hug minn allan á veturna en fótboltinn á sumrin.  Veiðistöngin var þó oft notuð á bryggjunni.

Besti ilmurinn? Rjúpnailmur á aðfangadag Jóla!  Einnig er minningin frá lyktinni af steiktum kleinum góð en oft vorum við strákarnir lengi að finna húsið á Hlíðarveginum sem ilmurinn kom frá í gamla daga.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Hlustaði á nánast allt; U2, Queen, Fleetwood Mac ofl. En líklegast var það lagið Walk of Life með snillingunum í Dire Straits.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Er með þá áráttu að flauta eða humma alltaf það lag sem ég heyrði síðast, þannig að líklegast tæki ég sama lag og var sungið á undan mér.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Beinum útsendingum frá leikjum landsliða Íslands í íþróttum.

Besta bíómyndin? The Shawshank Redemption, vegna þess að hún sýnir það að við megum aldrei missa vonina um betri tíð.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Skíðamanninum Ingemar Stenmark sem var sá allra besti þegar ég stundaði skíðin.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? 
Sósu með jólarjúpunni.

Hvert 
er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Rjúpan á aðfangadag „að hætti Mömmu”.

Hættulegasta helgarnammið? Allt sem inniheldur súkkulaði.

Hvernig er eggið best? Spælt eða sem fullþroskaður kjúklingur.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Frestunarárátta.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? 
 Skortur á húmor.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  
Vilji er allt sem þarf.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Hún er frá því er Björn bróðir minn leit á mig í vöggunni, skeggjaður og með bringuhár, þá áttaði ég mig á því að maðurinn er kominn af öpum.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Hermann fær mig ansi oft til að brosa

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Er ekki bara best að vera sáttur í eigin skinni?

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur?  Þær eru margar góðar en bókin hans Stefáns Jónssonar „Lífsgleði á tréfæti með byssu og stöng” er bæði fróðleg og skemmtileg.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? „Góðan daginn.” Þegar ég byrjaði að vinna á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki þá gekk ég langan gang og á móti mér kom kona.  Til að segja eitthvað þá sagði ég “Góðan daginn” og þá sagði hún: „Já, hann hlýtur að verða góður, þú ert búinn að segja það við mig fjórum sinnum í dag!”

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? 
Þær eru tvær; því það þurfti tvær til að ég yrði til!

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Á tónleika hjá Michael Jackson því hann var alveg með þetta!

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Nú verð ég að vera hógvær: „Simply the best”

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...
  Til Íslendingabyggða í Kanada.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Fara í skíðaferð erlendis, læra að búa til góða bernaise-sósu og sjá heimaleik með Arsenal ;o)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir