Rabb-a-babb 138: Halla Rut
Nafn: Halla Rut Stefánsdóttir.
Árgangur: '77 árgangur.
Fjölskylduhagir: Einstök.
Búseta: Bý á Hofsósi.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Ég er dóttir Margrétar Guðbrandsdóttur frá Sauðárkróki, hún er ritari í Varmahlíðarskóla. Og Stefáns Gíslasonar frá Miðhúsum í Blönduhlíð, hann er tónlistarkennari og organisti. Þau eru búsett í Varmahlíð og þar var ég alin upp.
Starf / nám: Er sóknarprestur í Hofsóss-og Hólaprestakalli.
Hvað er í deiglunni: Vinna og njóta sumarsins.
Hvernig nemandi varstu? Ég var ágætis nemandi í grunnskóla, var ægilega löt í fjölbraut en stóð mig mun betur þegar ég fór í Háskólann, þá um þrítugt.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Það er margt minnisstætt við þennan dag. Við vorum fermd saman ég og vinur minn Guðmundur Benediktsson frá Vatnsskarði. Fyrsta lagi var það fermingargreiðslan, ég fór í greiðslu og var ekki alveg nógu ánægð með toppinn. Túperaði hann extra mikið þegar ég koma heim. Þegar komið var til kirkju var ég svo stressuð fyrir því að lesa ritningarversið, var viss um að ég myndi gleyma því. Svo man ég að ég fékk minn fyrsta geisladisk í fermingargjöf, það var diskur með MC Hammer..og lagið “U Can't Touch This” var spilað alla ferminguna.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Það var nú margt, en aldrei datt mér í huga að ég yrði prestur.
Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Get ekki gert upp á milli hjólaskauta eða boltans.
Besti ilmurinn? Besta lyktin er af nýslegnu grasi og þvotti sem búið er að þurrka úti.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið (hver var uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst u.þ.b. 17 ára) Radiohead, Nirvana og Bon Jovi, ég hlustaði rosalega mikið á þessar hljómsveitir.
Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Life on Mars, eftir David Bowie. Í þau fáu skipti sem ég hef sungið í Kareókí þá er þetta lag tekið.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ég missi ekki af Game of Thrones. Íþróttir eru líka í uppáhaldi. Annars horfi ég ekki svo mikið á sjónvarp.
Besta bíómyndin? The Shawshank Redemption, hef horft skuggalega oft á hana. Þetta er bara meistara-stykki.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Það eru margir sem koma upp í hugann. En ég fylgdist nú aðeins með CrossFit Games um helgina og verð því að segja Katrín Tanja, hún er mikill íþróttamaður.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Öll heimilisverk...þar sem ég er nú ein í heimili.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Að elda án uppskriftar.
Hættulegasta helgarnammið? Ég er ekki mikill súkkulaðigrís, en ég elska snakk.
Hvernig er eggið best? Ég fæ mér vanalega eggjahræru
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ég er gleymin og get verið óþolinmóð.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Óheiðarleiki og yfirgangur.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? “Segið aldrei meira en þið getið staðið við”
Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég man vel eftir mér og Berglindi systur minni inn í herbergi í Raftahlíðinni, hún hágrátandi og ég að reyna að troða henni í allt of lítil föt. Fékk skammir, man það.
Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Það er nú það?
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Mér finnst gaman að lesa bækur eftir Paulo Coelho. Jú svo fyrst spurt er um uppáhaldsbók, þá verð ég auðvitað að nefna biblíuna :)
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? “Núnú” eða “jæja” og alveg með áherslum.
Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Þær eru margar mikilvægar. En mikilvægast er þó fyrir hvern og einn að hafa góðar fyrirmyndir og ætla ég því að nefna foreldra mína.
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég hugsa að ég færi aftur til þess tíma þegar ég var krakki, þá var lífið áhyggjulaust og leikið sér úti þar til klukkan var orðin allt of margt. Sumarkvöldin í Varmahlíð voru dásamlega skemmtileg.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? “konan sem týndi öllu”
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu? Ég færi með vinkonum mínum til Ítalíu, þar myndum við keyra um í nokkrar vikur og njóta lífsins.
Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Að ferðast um Suður–Ameríku hefur nú lengi verið draumurinn, ganga Jakobsveginn og svo hef ég alltaf séð það fyrir mér að ég taki mér langt frí e-h árið og fari til Ítalíu eða Frkklands í nokkra mánuði. Njóti góðs matar, menningar og jafnvel skrái mig í einhverja kúrsa tengda guðfræðinni (þá sérstaklega ef Ítalía yrði fyrir valinu).
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.