Rabb-a-babb 133: Dagný Marín

Nafn: Dagný Marín Sigmarsdóttir.
Árgangur: 1962.
Fjölskylduhagir: Hef verið í sambúð með honum Dolla mínum (Adolf H. Berndsen) í bráðum 36 ár og eigum við þrjú, að sjálfsögðu, yndisleg börn, Sverri Brynjar, Sonju Hjördísi og Sigurbjörgu Birtu. Barnabörnin eru enn yndislegri þau Iðunn Ólöf og Sigmar Víkingur.
Búseta:  Á Skagaströndinni góðu.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Foreldrar mínir voru þau Sigurbjörg Angantýsdóttir og Sigmar Jóhannesson, þau eru bæði látin. Ég ólst upp á Skagaströnd í kjallaranum hjá afa og ömmu, í „Mýrinni“ eins og hverfið er kallað. Þar var gott að alast upp og fullt af krökkum sem brölluðu margt saman. 
Starf / nám: Spákona/sögukona í Spákonuhofinu. Skrifstofumaður hjá Sorphreinsun Vilhelms, bókari og fisksali hjá Marska ehf.  Nám: Viðurkenndur bókari frá HR.  
Hvað er í deiglunni: Spá fyrir gestum í Spákonuhofinu og segja þeim sögur í allt sumar.  Spila golf, eyða sem mestum tíma með fjölskyldu og góðum vinum. Já, bara einfaldlega njóta þess að vera til og svo að plana sumarfrí í október.

Hvernig nemandi varstu?  Æi, þessi sem alltaf var blaðrandi í tímum en samt ekki til mikilla vandræða. Í framhaldskóla var ég meira í því að hafa bara  gaman og taka þátt í því sem var skemmtilegt. Batnaði með aldrinum og stóð mig bara nokkuð vel. Sem sagt heilt yfir svona þokkalegur námsmaður.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?  Smiður, arkitekt  eða bókmenntafræðingur.

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki?  Man ekki eftir neinu sérstöku. Var mikið bara úti í allskonar leikjum en við systurnar áttum bú þar sem var mikið  drullumallað og  leikið sér. Á veturna var ég mikið á skautum.  

Besti ilmurinn?  Lykt af nýhefluðu timbri því hún minnir mig alltaf á pabba. Hann vann sem smiður og angaði svo oft af timburlykt.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ég er dískófrík og á þessum árum var diskóið allsráðandi. Mikið hlustað á Village People, Chic, Donnu Summer, Boney M, Earth Wind & Fire í bland við Dr. Hook, Toto, og Billy Joel að ég tali nú ekki um Amii Stewart. 

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí?  Syng ekki í Kareóki! En að taka lagið í góðum vinahóp er annað mál. Við vinkonurnar erum þekktar fyrir að syngja Á Valhúsahæðinni (Passíusálm nr. 51) margraddað og af innlifun þegar við hittumst, það er alveg dásamlega gaman. Sem minnir mig á að við þurfum að fara að hittast og taka lagið.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?  Dr. Martin.

Besta bíómyndin? Love Actually.  Þessi mynd  fyllir allan tilfinningaskalann; sorg, vonbrigði, ást og hamingju, ásamt því að vera fyndin og innihalda skemmtilega músík og samansafn af frábærum leikurum.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili?  Hér á heimilinu erum við nú ekki mikið í því að vera betri, allir bara bestir í einhverju. Ef ég á að nefna eitthvað þá er ég nokkuð góð í eldamenskunni og ef það þarf að finna eitthvað sem er týnt þá er ég bjargvætturinn.  

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Fiskur í ofni og Gulltertan mín er sjúklega góð.

Hættulegasta helgarnammið?  Borða ekki nammi en pistasíuhnetur eru hættulegar alla daga og epli með hnetusmjöri.

Hvernig er eggið best?  Spælt báðum megin og helst egg úr hænunni minni, henni Steingerði sem býr hjá nágrönnunum mínum.  

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?  Reyni nú yfirleitt að láta mig ekki fara mikið í taugarnar á sjálfri mér en ef ég fer að tuða út af einhverju, sem ég get ekki breytt eða kemur mér ekki við, þá fer það í taugarnar á mér. Og svo vantar í mig betri tímastjórnun.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Óheiðarleiki, nöldur og neikvæðni.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  Svo skal böl bæta að benda á annað verra.

Hver er elsta minningin sem þú átt?  Að reka kýr með Jóhannesi afa. Líklega hef ég verið um 4 ára.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Tinni.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera?  Hef nú ekki verið með neina frægðardrauma en það væri örugglega gaman að vera Adele, svona eins og á einum tónleikum, því hún syngur alveg dásamlega. Nú ellegar hún Annika Sorenstam, ein af bestu konum heims í golfi, svona rétt til að upplifa hvernig á að spila fullkomið golf.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur?  Skuggi vindsins eftir Carlos Ruiz Zafón er ein af mínum uppáhalds bókum. En uppáhalds rithöfundurinn er auðvitað hún langamma mín, Guðrún frá Lundi.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið?  „Ég get svo svarið það!“ (sagt á innsoginu)

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati?  Við erum öll mikilvæg en fyrir mig persónulega tel ég það vera foreldra mína, annars væri ég ekki til.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu?  Í sunnudagslæri til mömmu og pabba svona 22 ár aftur í tímann. Einfaldlega til að spjalla  og njóta þess að vera með þeim.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni?  Ertu norn eða bara klikkuð kerling?

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... ...til  San Francisco.

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Bát með mótor (nenni ekki að róa), góða bók og mikið af kaffi. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir