Rabb-a-babb 129: Raggý

Raggý og Lilja Bergdís.
Raggý og Lilja Bergdís.

Nafn: Sigríður Ragndís Hilmarsdóttir, a.k.a  Raggý.
Árgangur: 1978.
Fjölskylduhagir: Gift Ómari Helga Svavarssyni húsasmíðameistara og dóttir okkar er Lilja Bergdís.
Búseta: Sauðárkrókur í Von við gömlu Freyjugötu.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Dóttir Hilmars Sverrissonar tónlistarmanns og Jennýar K. Ragnarsdóttur blómaskeytingameistara. Fædd hér á Krók en foreldrarnir voru duglegir að ferðast milli staða. Krókurinn, Kópavogur, Krókurinn, Borgarnes, Krókurinn & svo enduðum við í Kópavogi þar sem ég ólst bróðurpartinn upp og komum svo aftur hingað á Krókinn. Þau fóru aftur suður en ég varð eftir.
Starf / nám: Verslunarstjóri í besta bakaríi á landinu, Sauðárkróksbakaríi, og svo er ég leiðbeinandi í Þreksport. Er þar með ZUMBA & Betra Form.
Hvað er í deiglunni: Er með fullt af spennandi verkefnum upp í erminni og í rassvasanum. Langar mikið til að kenna aftur Palla-leikfimina en eins og er bara njóta þess í botn að vera loksins orðin mamma og geta unnið við dans sem ég elska að gera.

Hvernig nemandi varstu? Var fyrirmyndar nemandi, stundum svoldið mikið að gera hjá mér í tímum þannig að það síaðist ekki allt inn sem kennarinn sagði en þetta kom allt.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Hvað foreldrar mínir gátu verið mikið með mér og notið hans í staðinn fyrir að vera á kafi í eldun, bakeríi, plani og allskonar veseni.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Dansari! Vann fyrstu danskeppnina mína þegar ég var um 6 ára í afmæli hjá Steinu Margrét – fékk Mikado.

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Barbie, sippubandog dansskórnir voru í mestu uppáhaldi.

Besti ilmurinn? Rosalega gaman að prufa allskonar ilmi, þá sérstaklega ef það heitir eitthvað með kókos en enda alltaf aftur í Burberry Brit ... það er bara einfaldlega þannig.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Waterfalls með TLC, Here Comes the Hotstepper með Ini Kamoze og Take a Bow með Madonnu.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Karókí? Hef einu sinni tekið karókí flipp og þá varð fyrir valinu How Deep is Your Love með Bee Gees og ég einfaldlega brilleraði þarna sko. Verst að það var enginn að taka þetta upp og snaptjatt var ekki komið til sögunnar.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Sko! Eftir að Friends hættu þá er ekkert sem heltekur mig en góðir glæpaþættir eiga mig núna, þá helst Criminal Minds og eitthvað í þá áttina. En ég er ekkert að missa mig yfir neinu sko.

Besta bíómyndin? West Side Story – það segir sig bara sjálft, þetta er meistarastykki.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Gunnar Nelson. Yfirvegaðir bardagamaður, þeir gerast ekki flottari íþróttamennirnir.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Leita að hlutum. Nefið á mér þefar alla hluti uppi.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Stórhættulegur pastaréttur

Hættulegasta helgarnammið? Það er frænku minni að kenna að fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum síðan fór ég að borða ís. Ben&Jerry’s Karamel Sutra Core er mitt krypton. Ef ég sé þennan gæðing í búðinni um helgi þá er eiginlega ekkert sem stoppar mig.

Hvernig er eggið best? Linsoðið með smá sjávarsalti (ekki of heitt samt).

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Er í svolitlum hægagangi oft. Það er fjölskylduhúmor að bjóða Raggý allavega klukkutíma fyrr en hinum gestunum – en ég held að ég sé mikið að batna.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Tillitsleysi. Það fer fátt eins í taugarnar á mér

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Smælaðu framan í heiminn.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég hef verið u.þ.b. 3-4 ára, átti heima á Nýbýlaveginum í Kópavogi þegar ég stalst út um gluggann um miðja nótt til að leika mér í sandkassanum. Ég meina, hvað á maður að gera þegar maður getur ekki sofið?

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Jem. Söngkona sem breytist í ofurhetju með bleikt hár og slæst við allskonar óþokka á bleikum pinnahælum. Ef það er ekki hetja!? Ákvað að vera hún í einu ofurhetjuafmæli og sá sko alls ekki eftir því.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Örugglega geggjað að vera frægur í ca. klukkutíma. En að vera læstur inni á eigin heimili eða á hótelherbergi út af papparössum og einhverjum skríl er ekki fyrir fiðrildi eins og mig. No sir.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Las síðast The Help og fyrir það voru það bara skólabækur. Þegar fólk spyr mig hvort ég hafi lesið þessa og hina bókina segi ég alltaf: „Nehh, bíð frekar eftir myndinni.“ Þarf samt að fara gefa mér tíma í lestur held ég.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? „Héddna-þúst.“

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? 
Í mínu lífi er það amma mín eða ömmur. Þær kenndu mér allt sem stelpa/kona þarf að vita til að komast í gegnum allt – ekki spurning um að þær séu það mikilvægasta sem síðustu 100 ár hafa upp á að bjóða.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég færi hingað á Krókinn svona um 1920-40. Þegar ég skoða gamlar myndir héðan væri ég svo til í að skoða heimilin og vera þarna meðal fólks bara í smástund og rabba við það en komast svo aftur heim í nútímaþægindin, eins og góða sturtu og allt það.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...
Spánn verður einhvernveginn alltaf fyrir valinu þegar við förum í ferðalag. En ég væri til í að fara í ítalskt fjallaþorp.

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? iPod, símann (með nóga hleðslu) og koddann minn. Í gamla daga hefði ég sagt albúm – elska að skoða myndir en til þess er síminn núna.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Verða amma, eiga jól í allavega þremur löndum til viðbótar og fara í Drangey.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir