Rabb-a-babb 123: Unnur Valborg
Nafn: Unnur Valborg Hilmarsdóttir.
Árgangur: 1973.
Fjölskylduhagir: Gift Alfreð Alfreðssyni húsasmíðameistara, við eigum saman Guðna Þór (f. 2011) og Birtu Ögn (f. 2013). Fyrir átti ég Myrkva Þór (f. 1997)
Búseta: Í Valhöll og Sólgarði á Hvammstanga.
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Foreldrar mínir eru Hilmar Hjartarson frá Hvammstanga og Aðalheiður Gunnarsdóttir frá Laxárdal í Hrútafirði. Ég er alin upp á Hvammstanga til 9 ára aldurs og fluttist þá til Reykjavíkur, í Árbæinn.
Starf / nám: Ég er kennari að mennt og hef auk þess menntun í viðskipta og rekstrarfræðum og sem stjórnendamarkþjálfi. Ég starfa sjálfstætt við stjórnendaþjálfun, ráðgjöf og námskeiðahald, rek lítið fyrirtæki, aðstoðarmaður.is, sem sérhæfir sig í að aðstoða smærri og meðalstór fyrirtæki við alls kyns verkefni, sé um útleigu á íbúðum til ferðamanna í Sólgarði á Hvammstanga auk þess að vera oddviti sveitarstjórnar Húnaþings vestra og varaformaður stjórnar SSNV.
Hvað er í deiglunni: Fjöldi skemmtilegra verkefna sem ég hef gengið með í maganum lengi og ætla að hrinda í framkvæmd á komandi mánuðum.
Hvernig nemandi varstu? Samviskusöm og dugleg. Ég var mikil lestrarhestur og átti auðvelt með nám.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Man nú ekki mikið eftir þeim degi en ég hafði nokkrum dögum áður losnað við spangir og fannst gríðarlegur léttir að vera laus við þær. Eina fermingargjöfin sem ég á ennþá og nota er Ensk íslenska orðabókin.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég man ekki til þess að það hafi verið neitt eitt og raunar veit ég það ekki ennþá J
Hvað hræðistu mest? Ég hræðist ekki margt en mesti óttinn tengist því að eitthvað hendi fjölskyldu mína.
Besti ilmurinn? Ferskur vorilmur.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Á þeim aldri hlustaði ég mikið á gömlu hippatónlistina. T.d. úr söngleikjunum Hárinu og Jesus Christ Superstar. U2 hafa fylgt mér lengi. Annars er ég alæta á tónlist og hef alltaf verið.
Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Stand by your man með Tammy Wynett. Hef sigrað kareókí keppni með því ágæta lagi svo ég myndi halda mig við það.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Scandal, Grey’s anatomy og Nashville.
Besta bíómyndin?
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Mér finnst Bolt áhugaverður karakter. Mikill afreksmaður en pínulítið villtur utan vallar.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Það er nú ekki margt. Ég tel mig þó besta í því að sjá um þvottinn svo ég hleypi engum í það verkefni.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ég hef mjög gaman af því að elda og er bara sæmilegasti kokkur þó ég segi sjálf frá. Indverski rétturinn með kotasælukartöflunum slær alltaf í gegn. Líka hægelduðu pottréttirnir o.fl.
Hættulegasta helgarnammið? Mér finnst allt snakk ákaflega gott. Helst Lays með osti og lauk.
Hvernig er eggið best? Harðsoðið
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Óþolinmæði.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Ég hef tamið mér að láta fólk sem minnst fara í taugarnar á mér. Það sem ég á þó mjög erfitt með er ósannsögli og óheiðarleiki.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Það sem Pollýanna sagði: Þú getur reitt þig á að þú gleymir því sem þér leiðist ef þú leitar af því sem gleður þig.
Hver er elsta minningin sem þú átt? Þegar jólasveinninn skildi eftir fullan mjólkurkassa af nammi í þvottahúsinu heima.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Ég tengi hættulega mikið við Dóru í Nemó.
Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Ég myndi ekki vilja skipta við nokkurn mann og sérstaklega ekki einhvern frægan. Ert afskaplega sátt við líf mitt.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Ég er alæta á bækur eins og tónlist. Ég les mikið af viðskiptatengdum bókum og minna af skáldsögum. Ég reyni þó að lesa alltaf Yrsu og Arnald um hver jól.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Æ ég gleymdi því!
Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Allar konurnar sem hafa verið “fyrsta konan” til að gera eitthvað. Ómögulegt að nefna einhverja eina en allar þessar konur hafa rutt brautina í jafnréttisbaráttunni fyrir okkur sem á eftir hafa komið. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að við erum enn í dag að heyra þennan frasa “fyrsta konan til að…”.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Ég er komin heim.
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... í bakpokaferðalag um Asíu. Hef alltof lítið ferðast á þeim slóðum.
Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Ég er svo óþolandi praktísk að ég myndi taka hníf, kveikjara og pott.
Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Fá hlaupabakteríuna og hlaupa Laugaveginn, koma til Maldive eyja áður en þær sökkva endalega í sæ og búa um tíma einhversstaðar þar sem er hlýtt allt árið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.