Rabb-a-babb 122: Gísli Þór
Nafn: Gísli Þór Ólafsson.
Árgangur: 1979.
Búseta: Sauðárkrókur, Hlíðarhverfi.
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Sonur Ólafs Þorbergssonar (Óla Begga) og Guðrúnar Kristínar Sæmundsdóttur. Var fyrsta hálfa árið á Syðstu-Grund í Blönduhlíð, svo á Víðigrundinni og uppúr því á Skagfirðingabrautinni. Um þriggja ára aldur flutti ég í Eskihlíðina og ólst þar upp í sömu götu og Andri. Fyrir um 20 árum var svo flutt í Raftahlíðina.
Starf / nám: BA í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Starfa sem skjalavörður á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga
Hvað er í deiglunni: Plötuupptökur í sumarfríinu.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Vildi hárgreiðslu sem væri í anda 50´s og mínum huga var Kolli frændi minn frá Eyhildarholti fyrirmynd. Í fermingargjöf fékk ég minn fyrsta geisladisk.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Tónlistarmaður.
Besti ilmurinn? Það fer eftir dögum.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ég vildi ekki taka bílpróf en tók það svo ca. 18 ára svo ég gæti keyrt gula bílinn (íþrótthússbíllinn) og dráttarvélar á íþróttavellinum. Gula bílnum var svo skipt út fyrir rauða bílinn. Sjálfur hef ég aldrei átt bíl. Vinkona mín reyndi sitt besta til að kynna mig fyrir nýrri tónlist, sendi mér hljóðsnældur með lögum, m.a. með Foo Fighters og Jeff Buckley. Af nýju fílaði ég líklega mest Pulp. Var annars í Bowie, Bítlunum, Dylan, Bubba og Megasi og að uppgötva Leonard Cohen. Undir lok aldamóta féll ég fyrir Tom Waits.
Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Tók nýlega Another One Bites the Dust með góðri leikfélagsvinkonu.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Einhverjum góðum bolta. Er annars veikur fyrir sakamálaþáttum, en er vanalega farinn að sofa um tíu (líka um helgar). Féll fyrir Brúnni og horfi á Innsæi (Perception) og einnig Morðgátur Murdoch.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Kaffiuppáhellinguna.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Á háskólaárunum byrjaði ég að þróa pastarétt, steiktar pylsur, tortellini pasta, paprika og rjómi. Rétturinn var nokkur ár í þróun og var um tíma fullmótaður. Þá fór ég prófa kjúkling í stað pylsna og um tíma hafði ég hörpudisk, sem reyndar er svaðalega gott ef vel tekst. Ég drekk ekki að jafnaði en ímynda mér að sá réttur væri góður með hvítvíni. Í dag geri ég þennan rétt vanalega með hakki. Það er mjög gott að hafa rifsberjasultu með honum. Það má sjá uppskrift af réttinum í minni 4. ljóðabók.
Hættulegasta helgarnammið? Ætli það sé ekki ís með niðursneiddum lakkrís og jafnvel aukasúkkulaði og heit íssósa útá.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Er þrjóskur og lengi að tileinka mér nýjungar og ekki alltaf tengdur við röklega hluta heilans. En kannski eru þetta líka kostir svona í og með.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Fer eftir jafnvægi í mér sjálfum.
Hver er elsta minningin sem þú átt? Mamma, sem aldrei hefur verið mikið fyrir Bítlana, keypti Bítlaplötu og setti á fóninn á meðan hún gekk með mig. Sennilegt er því að ég muni eftir að hafa heyrt í Bítlunum áður en ég fæddist. Að öðru leyti finnst mér það hornið þar sem plötuspilarinn var í stofunni í Eskihlíðinni og Queen eða Bubbi í útvarpinu.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Tinni. Er einnig mjög veikur fyrir Simpsons og eins þeim þáttaröðum sem komu í kjölfar Simpsons þáttanna (Family Guy, American Dad o.s.frv.).
Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Neil Young segir að hann vilji láta eitthvað gott af sér leiða, annars sé enginn tilgangur með því að vera frægur.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Féll nýlega fyrir endurminningabók Neils Youngs, Waging Heavy Peace, en hann skrifaði hana sjálfur fyrir ca. þremur árum. Höfund verð ég að nefna Gyrði Elíasson.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Vinur minn segir að ég segi oft „já, reyndar“, en e.t.v. á það frekar við í spjalli á fjarskiptamiðlum heldur en hitt.
Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Fólkið í mínu daglega lífi.
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég myndi vilja fara til baka um ca. 100 ár (eða kannski nær ártalinu 1920) til að geta vitað hvernig Svarta húsið (Maddömmukot) birtist allt í einu á ljósmyndum frá þeim tíma. Annars er bara nóg að fara í kjallarann hjá B. Har.
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... Er lítið fyrir að ferðast, nema það sé gigg með Contanum. En það hefur hvarflað að mér að undanförnu að það væri gaman að fara á tónleika með U2. Einnig myndi ég vilja sjá Tom Waits á tónleikum.
Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Kaffi og plötur með Neil Young, Tom Waits og Bob Dylan.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.