Rabb-a-babb 119: Aldís Olga
Nafn: Aldís Olga Jóhannesdóttir.
Árgangur: 1976.
Fjölskylduhagir: Frábærir.
Búseta: Hvammstangi.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Dóttir Jóhannesar R. Jóhannessonar (Nanna) og Kristbjargar Sigurnýasdóttur. Uppalin í Húnaþingi vestra, á Hvammstanga að langmestu.
Starf / nám: Er lögfræðingur að mennt. Starfa hjá og rek Virkar ehf., bókhalds- og lögfræðiþjónustu á Hvammstanga, ásamt Ingibjörgu Jónsdóttur. Auk þess sé ég um vefmiðilinn Norðanátt.is og tek að mér hitt og þetta.
Hvað er í deiglunni: Það er alltaf eitthvað í deiglunni. Það fyrsta sem mér dettur í hug er héraðsdómslögmannsnámskeiðið sem ég stefni á að vinda mér í nú í haust.
Hvernig nemandi varstu? Hljóðlátur. Nei, annars var ég fínn nemandi held ég. Samviskusöm. Gekk voðalega vel í háskólanáminu og náði að dúxa þar.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Túperaði hártoppurinn og gervibrosið! Annars er þetta allt í hálfgerðri ellimóðu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég held ég hafi aldrei náð að ákveða það fyllilega. Hef alltaf viljað gera þrjúþúsund hluti (tæplega) og haft allt opið.
Hvað hræðistu mest? Það sem er utan einhvers sem ég gæti mögulega ráðið við. Eins og einhverjar ógurlegar náttúruhamfarir.
Besti ilmurinn? Vor- og sumarilmur.
Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ég tók bílprófið ekki fyrr en 19 ára, að mig minnir. Ég hlustaði t.d. á Suede á þeim tíma og lögreglusírenur á meðan bíllinn var dreginn af tjónsstað.
Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Ég myndi hafa gaman af því að taka útgáfu Corinne Bailey Rae af Is This Love en ef klukkan væri 01:15 og ég ekki ökufær þá sé ég fyrir mér skyndilegt I Will Survive með Gloria Gaynor.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Áramótaskaupinu.
Besta bíómyndin? Ég á voðalega fáar uppáhalds bíómyndir, en ég man að þegar ég sá Slumdog Millionaire fannst mér hún svakalega góð og áhugaverð.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Mér finnst aðdáunarvert þegar íþróttafólk leggur allt í sölurnar til að ná árangri. Enginn einn stendur uppúr þar.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Ég þori að veðja að ég sé best í kubb á mínu heimili.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ætli það sé ekki franska súkkulaðikakan. Ekkert stórverk, en heppnast alltaf.
Hættulegasta helgarnammið? Snakk. Hér gætu heilu snakkþorpin horfið ofaní gin mitt.
Hvernig er eggið best? Fullkomlega harðsoðið. Ekki of, heldur fullkomið. Engin pressa.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ég gæti klárlega tekið aðeins minna að mér stundum. Hins vegar endar það oft í skemmtilegum tækifærum að segja “já”. Svo gæti ég reynt að vera ekki 5 mín of sein alltaf.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Dónaskapur. Hann finnst mér yfirleitt alltaf verulegur óþarfi.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? „Elska dregur elsku að sér“ finnst mér svolítið fallegur málsháttur.
Hver er elsta minningin sem þú átt? Ætli það sé ekki þegar ég hellti mér mjólk í glas fyrir korteri. Ég er stórkostlega óminnug.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Er ekki Lína Langsokkur ská-teiknimyndapersóna? Hún er eitthvað svo flott fyrir stelpur (og aðra) til að fræðast um.
Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera (og af hverju)? Ég er alls ekki viss um að ég myndi vilja vera einhver tiltekin fræg manneskja. Hins vegar væri ég til í að hafa áhrif með einhverjum hætti og breiða út boðskap um val einstaklingsins til að fara ekki hina ímynduðu einu leið í lífinu.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur (og af hverju)? Ég les sáralítið og hef alltaf gert, fyrir utan skólabækur, svo ég er pass hér. Þetta stendur samt allt til bóta.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Djók. Ég segi það reglulega. Of mikið af gríni kannski. Er það hægt?
Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Ég ætla að segja lögmaðurinn Ghandi fyrir mannréttindabaráttu sína.
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég væri til í að fara aftur til ársins 1994, í desember nánar tiltekið, og kveðja afa Sigurnýas áður en hann lést.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Non è sempre bisogno di essere tradizionale? – Þarna verð ég orðin altalandi á Google-Translate-ítölsku.
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til Köben þar sem ég myndi hjóla eins og vindurinn, þaðan til Ástralíu, því næst Hawaii og svo heim. Helgarferð er það ekki?
Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Krossgátublöð, blýant og þverflautuna. Hljómar það ekki eins og party fram á rauða nótt?
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.