Rabb-a-babb 117: Helgi Thor

Nafn: Helgi Þór Thorarensen. 
Árgangur: 1956, sá albesti.
Fjölskylduhagir: Giftur sömu stórkostlegu konunni í nærri 40 ár og á tvö frábær uppkomin börn.
Búseta: Hagi í Hjaltadal.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Sonur Jóu og Siffa, þriðju kynslóðar Skerfirðingur, næstum því eins hreinræktaður og sr. Sólveig Lára.
Starf / nám: Prófessor á Hólum.
Hvað er í deiglunni: Svo margt, svo margt

Hvernig nemandi varstu?  Alltaf svoltið latur, en skánaði þegar frá leið.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Tannlausa japplandi kerlingin á fremsta bekk í Neskirkju. Eftir að við félagarnir komum auga á hana var mjög erfitt að halda alvörusvip sem hæfði alvarleika athafnarinnar. Það endaði allt í flissi.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Sá mig alltaf sem Georg gírlausa. Hann á svo mikið af flottu dóti.

Hvað hræðistu mest? Að svara svona spurningum

Besti ilmurinn? Fyrsta gróðurlyktin á vorin. Bíð ennþá eftir henni þetta vorið.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið (hver var uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst u.þ.b. 17 ára)? Dylan og Deep Purple. Fór á tónleikana með þeim síðarnefndu í Laugardagshöllinni.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Strangers in the night. Túlkun mín á skúbídúbídú kaflanum er ógleymanleg öllum sem heyrt hafa.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? Öllu, á ekki sjónvarp og lifi sjónvarpslausum lífsstíl. Það bætir geðið.

Besta bíómyndin (af hverju)? Yfirleitt sú seinasta því ég gleymi þeim jafharðan. Börn náttúrunnar standa mér samt alltaf nærri hjarta.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Hef aldrei skilið þetta íþróttablæti og lið í ensku knattspyrnunni. Það er helst að ég hafi mætur á Jóni Margeiri Sverrissyni sundkappa.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Elda

Hvert 
er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Hvar á ég að byrja?

Hættulegasta helgarnammið? Rauðvínsflaskan. Nei annars það er helber hollusta.

Hvernig er eggið best? Hæfilega spælt.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ég er löngu búinn að sætta mig við að ég er svona. Meira að segja konan er hætt að reyna breyta mér.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Ósannsögli þeirra sem reyna að ljúga því að ég hrjóti.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  
Lengi skal manninn reyna.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Þegar ég fékk mislingana. Í guðana bænum látið bólusetja börnin ykkar.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? 
Fyrir utan Georg gírlausa þá er það Tinni.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera (og af hverju)? Vil alls ekki vera fræg manneskja.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur (og af hverju)?  Þessa dagana er það hún Auður Ava Ólafsdóttir, ég bíð spenntur eftir hverri nýrri bók.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Er þetta tölfræðilega marktækt?

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Ég held að ofurmenni skipti litlu máli í stóra samhenginu.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu (og af hverju)? Millistríðsárin, þrátt fyrir kreppu og atvinnuþref. Einhvern vegin held ég að það hafi verið skemmtilegur og frjór tími. Þá stigu Íslendingar frá miðöldum og inn í nútímann á fáeinum árum.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni?  Flýtur meðan ekki sekkur.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu. Heim í Haga.

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Chreme brulee brennarann og pylsufallöxina sem ég fékk í jólagjöf frá dóttur minni og Victorinox fiskspaðann sem ég fékk frá syninum. Með þeim eru mér allir vegir færir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir